06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

107. mál, lendingarbætur í Þorlákshöfn

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg býst við, að engan furði á því, þótt borin sje fram till. til þess að bæta lendingar við suðurströndina. Að því er þessa lendingu snertir get jeg látið mjer að mestu nægja að vísa til hinnar ítarlegu grg., sem fylgir frv. Þetta frv. var athugað í n., sem að sumu leyti var skipuð af hæstv. stj. og sýslunefnd Árnessýslu, og ennfremur sátu í henni fulltrúar frá Fiskifjelagi Íslands. N. þessi skilaði áliti, og fylgir útdráttur úr því frv. sem grg. Þetta er ein happasælasta höfnin austanfjalls; þar er oftast ræði og mjög örugg lending, og má segja, að Þorlákshöfn sje neyðarlending fyrir sjómenn alla leið frá Þjórsárósum út að Krísuvíkurbjargi. Það, sem sjerstaklega hefir ýtt undir þessar lendingarbætur, er það, að síðustu ár hefir komið upp og aukist útvegur á smávjelbátum, sem eru hægir til uppsáturs. Þessir bátar hafa ýms góð skilyrði í Þorlákshöfn, en þar er erfitt með uppsátrið. Með litlum tilkostnaði má gera lendinguna miklu betri, svo að oftar verði róið og öll sjósókn öruggari. Allir vita, að þarna í þessari lendingu hefir verið bjargað mannslífum svo að skiftir ekki tugum, heldur hundruðum, og er hún því vel að því komin, að henni sje einhver sómi sýndur. Nú má búast við því, að þessum litlu vjelbátum fjölgi, því að menn vilja ógjarnan vera undir árum þegar þeir geta látið hið dauða afl vinna fyrir sig, og með lendingarbótunum mundu þeir hópast til Þorlákshafnar. Jeg held, að ekki þurfi fleiri rök til þess að hv. deild sjái þörfina, en vil aðeins geta þess, að þetta hefir ekki einungis þýðingu fyrir þá, sem þarna róa, heldur líka fyrir alla Árnessýslu og Suðurlandsundirlendið í heild. Þeir, sem sækja afla sinn á vetrum í verstöðvar eystra, munu ekki hverfa alfarið suður á nes, heldur búa búum sínum áfram og stunda landbúnað eftir sem áður. Þeir fá þarna góða atvinnu og bætt lífskjör, sjerstaklega þegar Flóaáveitan fer að bæta slægjur þeirra til muna. Þetta er mest í varið, og þetta vakir fyrst og fremst fyrir okkur, sem óskum þess, að sveitirnar blómgist. Jeg skal svo ekki þreyta hv. þdm. með lengri ræðu, en óska eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.