17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

107. mál, lendingarbætur í Þorlákshöfn

Jón Þorláksson:

Það er aðeins smáaths., er jeg vildi láta vera bendingu til hæstv. ríkisstj., ef til þess kemur, að frv. komi til framkvæmda. Þykist jeg hafa nokkra ástæðu til þess sökum kunnugleika míns á staðháttum í Þorlákshöfn.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að eigendur Þorlákshafnar leggi fram endurgjaldslaust nauðsynlegt land til lendingarbótanna, uppsáturs-, íveru- og fiskhúsa, alt að 15 þús. m2. Þetta er nauðsynlegt ákvæði, því hjer er verið að veita fje úr ríkissjóði til lendingarbóta á einkaeign. En orðalagið er svo, að orkað getur tvímælis, hvað átt er við með þessu ákvæði um nauðsynlegt land.

Jeg álít, að þetta verði að skiljast svo, að alt þetta flatarmál, sem nefnt er í frv. og sem jeg býst við, að megi ekki vera minna, verði að vera þurt land ofan við háflæðislínu. Álít jeg, að í þessu landi megi alls ekki telja frá fjöru og þann vatnsbotn, er lendir innan þessara lendingarbóta. Fæ jeg ekki betur sjeð en að hæstv. stj. hafi það í hendi sjer, að svo verði frá þessu ákvæði gengið áður en hún greiðir fje til þessa. Óska jeg þess, að orð mín verði til þess að alt það land, er samkv. frv. má taka til þessara lendingarbóta, verði tekið fyrir ofan háflæðislínu.