22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

92. mál, berklavarnir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hv. þm. Snæf. vil jeg leyfa mjer að segja fáein orð. Hv. þm. þótti sumt í frv. þessu fara of langt í aðhaldsáttina. Nú er það kunnugt, að kostnaður við berklavarnir hefir aukist um 100 þús. kr. á ári á hinum síðari árum, og verður þó ekki sjeð, að það hafi borið þann árangur, sem við mætti búast. Það er því óhjákvæmilegt að leita einhverra nýrra úrræða til þess að ráða bót á þessu ástandi, því að augsýnilegt er, að einhversstaðar hlýtur að vera leki í þessum gífurlega kostnaði, og undir þann leka verður að setja.

Hitt leiðir af sjálfu sjer, að jafnlítið frv. og þetta getur ekki tekið yfir öll þau svið, þar sem umbóta er þörf, en úr því mætti að sjálfsögðu bæta. Ef ekkert er gert til þess að draga úr þessum kostnaði, stefnir það í hreina og beina vitleysu og yrði í algerðu ósamræmi við gjaldþol landsins. Þannig yrði kostnaður við berklavarnir kominn upp í 4–5 milj. kr. á ári eftir nokkur ár, ef áframhaldið yrði það sama og verið hefir á undanförnum árum, en það sjá allir heilvita menn, að ekki getur náð nokkurri átt. Jeg býst þess vegna við, að hv. þm. Snæf. verði að sætta sig við það, að einhversstaðar verði skorður settar og reynt að spara meira en gert hefir verið hingað til.

Þá vjek hv. þm. að 1. gr. frv. Þeirri hlið hefir eigi verið sint ennþá, hvorki af löggjafarvaldinu nje hælunum, en landlæknir telur ákvæði það alveg sjálfsagt. Þó er ekki þar með sagt, að það ákvæði hefði áhrif undir eins, ef samþ. verður, en ætla má, að það geti orðið þýðingarmikill þáttur í framtíðinni.

Það er alveg rjett hjá hv. þm., að sjúklingunum á Vífilsstöðum hefir ekki verið ætluð nein vinna. Hefi jeg einnig ástæðu til þess að halda, að læknirinn þar líti öðruvísi á það mál en landlæknir. Þó hefir hann látið í ljós það álit sitt viðvíkjandi minningarspjaldasjóðnum, að það fje hefði mátt nota til þess að byggja á vinnu handa sjúklingunum.

Við hressingarhælið í Kópavogi var að áeggjan landsstj. bygð vinnustofa, en hún hefir orðið að minni notum en ætla mætti, því að þar hefir komið fram talsverð tregða hjá sjúklingunum að leggja á sig vinnu. Fyrir því er það óhjákvæmilegt að skylda þá sjúklinga til vinnu, sem að dómi læknis eru þess vel færir.

Þá vjek hv. þm. að því, og það með rjettu, að í frv. er ekki minst neitt á framtíðarskilyrðin fyrir slíka vinnu.

Ef læknir á öðru heilsuhælinu vildi ekki gera mikið úr þessari breytingu, nje heldur að sjúklingar á spítölum í kaupstöðum væru látnir eitthvað vinna, þá yrði ekki mikið um framkvæmdir í þessu efni fyrst í stað. Á Kristnesi hafði jeg hugsað mjer, að sjúklingar gætu unnið nokkuð að garðrækt og túnrækt, enda eru ræktunarskilyrði þar góð. Annars vil jeg geta þess, að fyrir stj. og landlækni vakir það, að óhjákvæmilegt muni verða að koma upp bráðlega nýju hressingarhæli, og þá helst á einhverri hverajörð skamt frá Reykjavík. Gæti vistin orðið sjúklingum ódýrari þar en í spítölum, og gert yrði ráð fyrir því þegar í upphafi, að sjúklingar ljettu undir við garðrækt og túnrækt.

Stj. hefir fengið tilboð um eina slíka jörð hjer nærliggjandi og lagt það fyrir þingið í sambandi við fjárl.

Fram á þessar breyt. mundi alls ekki farið, ef það væri ekki þessi mikli kostnaður vegna berklavarnanna og sem ekki virðist hægt að stöðva á annan hátt en með nýju skipulagi, svo að meira fáist fyrir peningana en hingað til.

Þetta er því skýring stj. til hv. þm. Snæf. og annara á því, sem segir í grg. frv. um vinnu berklaveikra manna. Hjer er því um að ræða einn lið í þeim möguleikum að draga saman í hressingarhæli þá sjúklinga, sem nú fylla heilsuhælin og eiga ekki að vera þar. Og þá um leið að halda þeim sjúklingum saman, sem vitanlegt er um, að ekki er hægt að lækna. Á báðum heilsuhælunum er sem stendur fjöldi sjúklinga, sem mundu vera betur komnir annarsstaðar, ef um slíkar stofnanir væri að ræða. Í því sambandi má og geta þess, að um 1/3 þeirra fullorðnu sjúklinga, sem nú fylla hælin, er það vitanlegt, að þeim muni ekki batna, en dvalarkostnaður þeirra nemur þó 5 kr. á dag. Ef takast mætti með minni kostnaði, að sjúklingunum liði eins vel eða jafnvel betur en nú á sjer stað, þá er auðsær ávinningurinn bæði fyrir landið og sýslufjelögin.

Hv. þm. Snæf. virtist mótfallinn því ákvæði í 3. lið 1. gr., að stj. tilnefni sjerstaka lækna, sem einir skuli úrskurða um berklaveika sjúklinga. Þetta ákvæði er sett inn eftir till. þess læknisins, sem mest afskifti hefir haft af berklaveikum sjúklingum hjer í Reykjavík, og virðist mjer, að upp úr því megi talsvert leggja. Hitt atriðið, um hjeraðslækna alment, held jeg að ekki verði mikið deiluefni. Jeg geri ráð fyrir, að mikið sje til í þeirri skoðun hv. þm., að óþarfi sje að ganga framhjá hjeraðslæknum í þessu efni, enda er auðvelt að halda því opnu, að hjeraðslæknar úrskurði hver í sínu hjeraði, hvort berklasjúklingur skuli tækur í hæli eða ekki.

En hjer í Reykjavík er fjöldi lækna, sem hver í sínu lagi úrskurðar, hvaða sjúklingar skuli teljast berklaveikir, en það er sama og fyrirskipa, að slíkir sjúklingar eigi heimting á styrk úr ríkissjóði. Virðist þó hægur vandi og gæti í mörgum tilfellum verið rjettara að láta yfirlækninn á Vífilsstöðum eða aðstoðarlækninn þar hafa úrskurðarvaldið. Sama er og um Akureyri að segja, að þar er einnig fjöldi embættislausra lækna, en auðvelt að ná til læknisins í Kristnesi til þess að úrskurða um berklasjúklinga. Þessu, sem jeg hefi nú sagt, er aðallega beint til hv. þm. Snæf., svo að hann sjái, að þessu ákvæði er fyrst og fremst stefnt að stórbæjunum, þar sem mest er í húfi, en hitt er ekkert verulegt atriði fyrir mjer, hvort allir hjeraðslæknar hafi þetta úrskurðarvald eða einn eða tveir í hverjum landsfjórðungi.

Þá var það eitt orð í ræðu hv. þm. Snæf., sem jeg kunni ekki við. Hann sagði, að það væri harðræði við sjálfsákvörðunarrjett sjúklinga, ef samið er við vissa ljóslækningastofu um lækning þeirra. Þetta gæti ef til vill verið spursmál, ef það væri einkamál sjúklinganna og þeir greiddu sjálfir kostnaðinn við lækninguna. En það er sannarlega ekki einkamál sjúklinganna á meðan ríkið greiðir fyrir þá 8–10 krónur á dag, eins og dvalarkostnaðurinn hefir verið í franska spítalanum og „sóttvörn“ eða annarsstaðar hjer í bæ, þar sem sjúklingum hefir verið holað niður. Og ef stj., sem sjálfsagt verður að ganga út frá, velur bestu menn og bestu ljóslækningastofuna til að framkvæma lækning una, þá er engin meining að kalla það harðræði við sjálfsákvörðunarrjett sjúklinga.

Það hefir verið talað um það í blöðunum og því óspart á lofti haldið sem sjerstakri móðgun við sjúklinga af hálfu stj., þegar hún samdi við tvo þektustu háskólakennarana í læknavísindum að stunda berklaveika. Þetta skipulag var kallað hin mesta goðgá, að sjúklingum var meinað að ganga til hvaða óvanings sem kann að finnast hjer í bæ í læknalistinni, en ríkissjóður skyldugur að borga kostnaðinn, hvað ósanngjarn sem reikningurinn kunni að vera. Jeg tek þetta fram af gefnu tilefni, því það hefir verið þyrlað upp svo miklu moldviðri bæði í blöðunum og manna á milli um þessa sjálfsögðu ráðstöfun stjórnarinnar.

Það hefir verið svo mikið og óverjandi sleifarlag á framkvæmd berklavarnalaganna, að landið, sem þó borgar brúsann, hefir ekki verið þar um fullkominn húsbóndi. Læknar Reykjavíkur hafa þar mestu um ráðið, og svo eru þeir að tala um ofbeldi af hálfu stj., er hún reynir að taka í taumana til að firra landið óþarfa eyðslu. Alt slíkt skraf lækna er hneykslanlegt og blettur á íslenskri læknastjett, að þetta og því um líkt skuli hafa frá þeim heyrst.