22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2637 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

92. mál, berklavarnir

Halldór Steinson:

Jeg hjelt, að út af þessum örfáu meinlausu aths., sem jeg gerði við ræðu hæstv. dómsmrh., mundi hann ekki komast í jafnmikinn hita og nú sýndi sig í lok ræðu hans.

Mjer hefir aldrei komið til hugar að halda því fram, að allir læknar væru jafngóðir. Við vitum allir, að þeir eru mismunandi góðir. En þó að þeir sjeu ekki allir jafngóðir, þá er hitt víst, að sá dómsmrh., sem nú skipar þann tignarsess, er allra manna óhæfastur til þess að skera úr, hvort sjúklingar skuli leita þessa læknis eða hins. Og jeg vil bæta því við, að það mun ekki vera til svo ljelegur læknir á öllu landinu, að hann væri ekki margfalt hæfari ráðherranum til þess að úrskurða í þessu efni.

Hugleiðingum hæstv. ráðh. um áfengislyfseðla, sem ekkert koma þessu máli við, vísa jeg aftur heim til föðurhúsanna. Sama er og að segja um ýmislegt fleira í ræðu hans, þar sem hann var að telja upp baðklefa, salerni o. fl., að það kemur ekkert því máli við, sem hjer er verið að ræða um. Aftur á móti get jeg ekki látið vera að svara því, sem hann beindi að mjer og minni stjett sjerstaklega. Hann kallaði afstöðu lækna til þessa máls hræsni og gaf í skyn, að eiginhagsmunir rjeðu þeirra afstöðu. Það er nú ekkert nýtt, að þessi ráðh. geri ráð fyrir þeim hvötum hjá öðrum, sem í svo ríkum mæli eru hjá honum sjálfum. Framkoma ráðh. í þessu máli er eftirtektarverð, eins og svo oft áður. Þegar með hógværð og rökum er bent á þá galla, sem eru á frv. hans, sem er sannkallaður vanskapnaður í frumvarpsformi, þá rýkur hann upp eins og naðra með brigslyrðum, aðdróttunum og hótunum. Auðvitað dettur hvorki mjer nje neinum öðrum, sem er ant um sóma sinn, í hug að svara í sama tón. En óneitanlega er það hart, að dómsmrh. skuli haga sjer svo úr sæti sínu á Alþingi.