22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

92. mál, berklavarnir

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. mintist fyrv. stj., eða öllu heldur hv. 1. þm. Skagf., er þá gegndi störfum dómsmrh., og taldi, að hann hefði byrjað á einhverjum ráðstöfunum um berklavarnir, sem núv. stj. hefði svo haldið áfram. Það kann vel að vera, þó jeg muni það ekki, að hv. 1. þm. Skagf. hafi byrjað á einhverju, sem núv. stj. hafi svo haldið áfram, en það er mjer óhætt að fullyrða, að fyrv. dómsmrh. hafi ekki gengið inn á þá braut að fyrirskipa sjúklingum, hvaða læknis þeir skyldu leita. Með sparnaði í þessa átt er hægt að leggja bæði inn á skynsamlega og óskynsamlega braut. Með ráðstöfunum fyrv. stj. var lagt inn á skynsamlega braut, en hæstv. dómsmrh. hefir farið út af henni, er hann tók sjálfsákvörðunarrjettinn af sjúklingum. Það er rjett og skynsamlegt, að ríkið setji taxta fyrir verk, sem það á að greiða fyrir, og borgi svo í samræmi við hann. Sá maður, sem fór með þetta umboð hjá fyrv. stj., neitaði að greiða þá reikninga, sem voru hærri en sá taxti, er ríkið hafði ákveðið að gilda skyldi. En þrátt fyrir þetta eftirlit af hálfu fyrv. stj. höfðu sjúklingarnir fullkomið frelsi eftir sem áður að velja sjer hvaða lækni sem var.

Jeg geri ekki ráð fyrir mótstöðu frá læknum gegn því, að settur væri ákveðinn taxti; þeir mundu beygja sig undir hann, væri hann bygður á sanngirni og skynsamlegu viti. Og sama á við um ákvæði frv. um ljóslækningastofurnar. Það er skynsamlegt að setja hæfilegan taxta um ljóslækningar og hæfilegt eftirlit með því, að tækin sjeu gild. Þetta eftirlit er hægt að framkvæma á þann hátt að tryggja ríkissjóð gegn því að greiða of mikið fyrir lækningarnar, og að sjúklingarnir sjeu sjálfráðir um, hvaða ljóslækningastofu þeir nota. Það er skynsamlega leiðin að borga hverjum, sem í hlut á, það, sem sanngjarnt er, en óskynsamlegt, að yfirvöldin greini í sundur, að þessum skuli borga, en hinum ekki.

Annars fanst mjer óþarft af hæstv. dómsmrh. að komast í slíkan hita og hann gerði í lok ræðu sinnar, þó að beint væri til væntanlegrar nefndar nokkrum aths. viðvíkjandi frv. En þó verð jeg að segja fyrir mitt leyti, að það gladdi mig að sjá, að gosgígur stjórnarinnar í þessu eldfjallalandi er ekki með öllu útilokaður enn.