22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

92. mál, berklavarnir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er athugavert við ræðu hv. 3. landsk., að sú skilgreining, sem hann vill gera á ráðstöfunum mínum og fyrirrennara míns, hv. 1. þm. Skagf., er ekki á neinum rökum bygð og að engu hafandi.

Ef hann vildi líta til baka og kynna sjer þá leið, sem farin var, þá var það svo, að embættislausir læknar hjer í Reykjavík hófu stór mótmæli gegn ráðstöfunum fyrirrennara míns. Þeir reyndu að hóta málaferlum, ef settur yrði taxti, sem væri of lágur að þeirra dómi, því að þeirra taxti hlyti altaf að vera talsvert hærri en þeirra lækna, sem sætu í embættum, Afleiðingin mundi því verða sú, að embættislausu læknarnir mundu ekki sætta sig við hinn lága taxta ríkisins og neita að taka á móti sjúklingum og þá eftir aðeins tveir læknar, sem hægt væri að leita til, því vafamál er, hvort háskólaprófessorar geti ekki neitað líka, og þá er frelsið farið. Hv. þm. virðist því ekki vera sjerstaklega vel að sjer í þessu, fyrst hann heldur því fram, að frelsinu sje best borgið með gamla skipulagsleysinu.

Í Hafnarfirði er t. d. ljóslækningastofa rekin af hjeraðslækninum sjálfum, og ætti hann þá að veita sjálfum sjer eftirlit. Jeg nefni þetta aðeins sem dæmi, en í þessu tilfelli mun það að vísu ekki koma að sök, þar sem hlutaðeigandi hjeraðslæknir er hinn mesti sómamaður í alla staði. Það hefir nú komið fram í þessum umr., að hv. 3. landsk. veit ekkert um þessi mál, að hann botnar ekki nokkurn skapaðan hlut í þeim, svo að hann getur ekki talað um þau af neinu viti.

Jeg skal taka annað dæmi. Hjer í Reykjavík rekur landið ljóslækningastofu, mjög góða stofnun með öllum bestu og fullkomnustu tækjum, sem til eru í landinu. Ef svo kæmu hingað t. d. 20 læknar og settu upp samskonar stofur hjer í bænum, auglýstu þær og hefðu öll brögð í frammi til þess að lokka til sín sjúklingana, gæti svo farið, að stofnun landsins stæði hálftóm, en svo ætti ríkissjóður að borga keppinautunum fyrir að hafa sjúklingana til lækninga. Hv. 3. landsk. mundi ekki álykta svo barnalega, ef það væri hans eigin sements- eða járnverslun, sem í hlut ætti. Engum getur komið til hugar að halda því fram nema forföllnustu íhaldsjöxlum, að ríkissjóður eigi að styrkja samkepnisstofnun við landið sjálft, samkepnisstofnun, sem sennilega er miklu ófullkomnari og verri í alla staði. — Það er yfirleitt alveg sama, hvernig litið er á röksemdaleiðslu hv. 3. landsk. í þessu máli; það er auðsjeð á henni, að hann annaðhvort hugsar ekki um málið eða hefir ekkert vit á því. Hann talaði um, að það væri ógurleg kúgun, ef landið segir fyrir um, að sjúklingurinn skuli nota þann lækni, sem það hefir gert samninga við. Hvernig heldur hann, að það sje í sjúkrasamlögum? Sjúklingunum er þar alls ekki leyft að fara til hinna og þessara lækna, þegar stjórn samlagsins er búin að semja við einhvern vissan. Ef hann semur við húslækni, heldur hann að það sje kúgun, þó að húslæknirinn sje látinn skoða heimilisfólkið? Nei, það getur enginn verið svo heimskur í sínu eigin máli. Hjer er einmitt gott tækifæri til þess að skapa atvinnu í þjóðfjelaginu fyrir góða og heiðarlega menn úr læknastjettinni. Mikið af því fje, sem varið er til berklavarna hjer á landi, hefir farið í sukk vegna eftirlitsleysis og vegna þess, að það hefir reynst svo með suma berklalæknana eins og áfengislæknana, að þeir hafa ekki verið starfinu vaxnir.

Jeg ætla ekki að þessu sinni að svara hv. þm. Snæf. neinu, þar sem hann má ekki taka oftar til máls við þessa umr., en mun gera það þegar málið verður tekið til 2. umr. hjer í hv. deild.