02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

92. mál, berklavarnir

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. í þessari hv. deild mættu sum atriði þessa frv. nokkurri mótstöðu. Við athugun frv. hefir allshn. reynt að taka tillit til þeirra atriða, sem bent var á að betur mættu fara, eftir því sem hún taldi sjer fært. N. hefir því orðið sammála um nokkrar brtt., sem eru að sumu leyti formbreyt., en að sumu leyti efnisbreyt. N. taldi rjett að fella breyt. inn í lögin frá 1927 á nokkuð annan hátt en gert var í frv. Einnig fanst n. rjett, að breytt væri orðalagi 3. liðs, og ná þó sama tilgangi. N. leggur því til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 456. Ennfremur taldi n. rjett að ganga svo frá frv., að hægt yrði að skeyta það og lögin frá 1927 inn í lögin frá 1921 og nema úr gildi lögin frá 1927. Það er ókostur að hafa mörg lög um sama efni og verða því að leita að þeim á mörgum stöðum. N. þótti því sjálfsagt að orða þessar 4 brtt. sínar svo, að mynda mætti úr þeim eina heild. Vona jeg, að hv. þdm. geti nú gengið að frv. Eftir því sem fram kom við 1. umr., þá var það aðallega haft á móti frv., að sjúklingar gætu ekki fengið að leita þess læknis, er þeir óskuðu. Brtt. n. gera þetta fært, án þess að útgjöld ríkissjóðs aukist við það. Og þar sem jeg býst ekki við, að brtt. n. mæti andstöðu, sje jeg ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, nema sjerstakt tilefni verði gefið til þess.