10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

92. mál, berklavarnir

Frsm. (Magnús Torfason):

Allshn. hefir lagt það til, að frv. þetta nái fram að ganga óbreytt. Þó hafa tveir nm., þeir hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Skagf., skrifað undir nál. með fyrirvara, sem þeir að sjálfsögðu gera grein fyrir. Að því er snertir efni frv. þessa, þá er það fyrst, að stjórnarráðinu er gefin heimild til þess að ákveða hámarksdaggjald fyrir sjúklinga. Ennfremur á það að semja fyrirfram við ljóslækningastofur og sjúkrahús um kostnað allan við dvöl og lækningu styrkhæfra sjúklinga. Og loks er stjórnarráðinu heimilt að setja reglur um sundurliðun þeirra reikninga, er ríkissjóður greiðir.

Þetta er fyrsti liður frv. þessa.

Þá er í 2. lið frv. ákvæði um það, að þeir sjúklingar, sem eru að einhverju leyti vinnufærir, skuli skyldir til að taka þátt í þeim störfum á heilsuhælum, hressingarhælum og sjúkrahúsum, sem þeir að dómi læknis eru færir um að inna af hendi. Eins og kunnugt er, er þetta gert víða erlendis og talið gefast vel. Í sambandi við þetta er ákvæði um það, að sjúklingurinn geti fengið dálitla borgun fyrir starf sitt. Og vil jeg fyrir mitt leyti leggja áherslu á það, að sjúklingamir fái eitthvað af laununum sjálfir, því að það er að sjálfsögðu með þá eins og aðra menn, að það gerir þeim starfið ljettara, ef til einhvers er að vinna. Þetta vænti jeg, að geti orðið sjúklingunum til góðs. Og ennfremur að fyrir vottorð og hjálp annara lækna skuli ekki greitt hærra gjald frá því opinbera en það, sem hjeraðslæknum er heimilt að taka samkv. verðskrá. Virðist þetta ákvæði að nokkru leyti sjálfsagt, þar sem læknar fá atvinnu við þetta og þegar þess er gætt, að sjerlæknarnir í þessum greinum eru einmitt embættislæknar. Getur því naumast staðist, að hærra sje goldið öðrum læknum en þeim, sem ríkið hefir á að skipa.