10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

92. mál, berklavarnir

Magnús Guðmundsson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, sem þýðir þó ekki það, að jeg ætli að leggjast á móti frv. Jeg er ekki viss um, að það sje alveg örgrant, að þetta kunni að hafa einhver áhrif í þá átt að draga úr kostnaðinum, en hygg þó, að það verði mjög óverulegt gagn, sem það gerir í þá átt. Byggi jeg það álit mitt á því, að flest af því, sem í frv. felst, hefir verið reynt áður, en þó borið lítinn árangur. T. d. hefir ákvæðinu um sundurliðun reikninga verið fylgt, en lítið dregið úr kostnaðinum.

Ákvæðið um vinnuskyldu sjúklinga getur helst átt við hressingarhælið í Kópavogi eins og nú standa sakir. Þetta hefir verið reynt þar, en orðið lítið úr vinnu. Og þó þetta ákvæði sje máske miðað við það, að nýtt hressingarhæli verði bygt, þá legg jeg áherslu á, að með þessu ákvæði er engin ákvörðun eða afstaða til þess tekin að byggja slíkt hæli. — En á hinum berklahælunum, Vífilsstöðum og Kristnesi, er varla um marga menn að ræða, sem geta unnið.

Um 3. liðinn er það að segja, að það hefir verið ákveðið áður, að embættislausir læknar fengju ekki hærri gjöld fyrir lækningar berklasjúklinga en hjeraðslæknar eiga heimtingu á eftir taxta. Þetta hefir valdið talsverðri óánægju, en jeg vil benda á, að það hefir þó ekkert dregið verulega úr kostnaðinum. Það hefir oft áður verið talað um það, að berklavarnakostnaðurinn væri að vaxa okkur yfir höfuð. En þær till., sem um það hafa verið gerðar að draga úr honum, hafa ekki fundið náð fyrir augum þingsins. Meining mín með þessum orðum var því sú, að láta þá skoðun mína í ljós, að menn þyrftu ekki að búast við, að þetta muni draga mikið úr kostnaðinum. Sennilega verður það sama og ekki neitt.