06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

116. mál, lækningaleyfi

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv. er flutt eftir beiðni landlæknis; hann hefir samið frv. og grg., sem fylgir því, og ber alla ábyrgð á því. Jeg hefi orðið til þess að flytja það hjer í hv. þd., af því að það hefir talsverða þýðingu fyrir heilbrigðismálin. Tilefni þessa frv. er það, að landlæknir hefir fengið skýrslur frá heilbrigðisnefnd þjóðabandalagsins og beiðni um, að því yrðu aftur sendar skýrslur um farsóttir hjer á landi. Hefir það boðist til að senda hingað aftur í staðinn skýrslur og vitneskju um heilbrigðisástand og farsóttir víðsvegar í heiminum. Þetta hefir samskonar þýðingu fyrir heilbrigðismálin eins og veðurskeytin hafa fyrir veðurspár. Þau gera það mögulegt að spá um veðurfarið nokkru fyrirfram.

Hingað til hafa ekki verið heimtaðar heilbrigðisskýrslur af læknum nema mánaðarlega. En nú er áríðandi, að þær komi reglulega til landlæknis, og samkv. frv. er ætlast til, að þær sjeu sendar strax eða jafnóðum, svo að landlæknir geti sent þær til þjóðabandalagsins samstundis. Jeg þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. í grg. er ljóslega bent á nauðsyn þess. Jeg vil aðeins mælast til, að því verði lofað að ganga fram með nægum hraða til þess að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Vona jeg, að því verði tafarlaust vísað til 2. umr., og hefði það átt að geta gengið þangað nefndarlaust; en ef hv. d. sýnist það ekki gerandi, þá vil jeg stinga upp á, að frv. verði vísað til allshn.