18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

75. mál, kirkjugarðastæði í Reykjavík o.fl.

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er komið fram af því, að það hefir gengið nokkuð seint að fá ákveðið kirkjugarðsstæði í Reykjavík, en það kemur aftur til af því, að það eru tveir aðilar, ríkið annarsvegar, en bærinn hinsvegar, sem hafa þurft að vinna saman, en það hefir gengið mjög treglega að fá bæinn til að taka ákvörðun fyrir sig.

Í grg. frv. er getið um það, hvernig mál þetta hefir reynst ríkissjóði. Fyrir nokkrum árum síðan var gamli kirkjugarðurinn uppgenginn. Keypti ríkið þá mel hjá kirkjugarðinum fyrir 20 þús. kr. og ljet síðan girða landið, fyrir 40 þús. kr., svo neyddist landið til að láta flytja þangað mold, og hafa í það farið 80 þús. kr. Það er þannig geysimikið fje, sem farið hefir í þessa kirkjugarðsráðstöfun, án þess að málið sje þó leyst nema til skamms tíma. Ef nú svo óheppilega vildi til, sem þó er vonandi að ekki verði, að hingað kæmu skæð veikindi, eins og t. d. inflúensan haustið 1918, þá gæti farið svo, að kirkjugarðurinn yrði uppnotaður eftir fáa mánuði, og bærinn þá kirkjugarðslaus. Nú er ekkert land til hjer við bæinn, en talað hefir verið um tvo staði, sem komið gætu til mála, inni við Elliðaár eða inni í Fossvogi. En hvernig sem með málið er farið, þá verður að útvega nýjan kirkjugarð, og ef það er land, sem eitthvað þarf að gera við, t. d. ræsa fram, þá getur það tekið dálítinn tíma að gera það nothæft.

Það er þess vegna farið fram á það, að Reykjavíkurbær leggi til óræktað land, sem bærinn á, fyrir kirkjugarð, og síðan sje ráðgast um það við stjórnir safnaðanna hjer í bænum, og bæjarstj., ef hún óskar þess, hvort landið eigi að taka, og síðan verður farið að undirbúa þann reit, svo að hann geti verið hæfur til greftrunar í, þegar núv. kirkjugarður er uppnotaður. En af því að hver landsstj. hlýtur að óska þess að bærinn taki að sjer kirkjugarðsmálið, þá er svo ákveðið í 2. gr. frv., að bærinn geti tekið við því með samningi við hlutaðeigandi ráðh. Þetta hefir töluverða fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð, og gæti auk þess verið óþægilegt, ef bæjarstj. vildi ekki kveða á um það, hvaða land hún ljeti undir kirkjugarð, en gæti svo sagt við ríkisstj.: Nú verðið þið að útvega okkur kirkjugarð, því að nú er ekkert til lengur að greftra í. — En jeg skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en óska, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.