17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

125. mál, fjáraukalög 1928

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi ekkert út á það að setja, þótt hv. þm. Seyðf. hefji aðfinslur út af því, að eigi hafi nægileg grg. fylgt frv. þessu til fjáraukalaga, sem hjer liggur fyrir. Jeg játa, að svo er í raun og veru. En öll þau ár, sem jeg hefi setið í fjvn. þessarar hv. deildar, hefir n. ekki haft við aðrar heimildir að styðjast en þær skýringar, sem fylgdu frv. N. hefir því sjaldnast haft tök á að rannsaka gaumgæfilega hvern einstakan lið eða gera sjer ljósa grein fyrir þeim ástæðum, er legið hafa til þess að fjárgreiðsla var rjettmæt eða óhjákvæmileg. Í þetta sinn er sömu sögu að segja. Jeg tek því alls ekki illa upp aths. hv. þm. og er honum samdóma um það, að æskilegt sje að sem fullkomnastar skýringar fylgi hverjum fjáraukalögum.