14.05.1929
Efri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Jón Þorláksson:

Jeg á sæti í þeirri n., er greiddi götu þessa frv. inn í þingið fyrir tilmæli hæstv. fjmrh. En jeg vildi samt við þessa 3. umr. málsins láta fylgja því nokkrar almennar aths. frá mjer.

Frv. þetta felur ekki neitt annað í sjer en að safna á einn stað þeim lántökuheimildum og heimildum til lánsfjárnotkunar, sem búið er að gefa og verið er að gefa í ýmsum lögum og með fjárlagaákvæðum. Það er því algerlega formlegs efnis og á ekki að hafa í för með sjer neinar breyt. á þeim lögum, sem þegar hafa verið afgr. eða er nú verið að afgr. En þar sem hjer er um svo merkilegt mál að ræða, þykir mjer rjett að minna á, að í árslok 1923 voru ríkisskuldirnar um 18 milj. króna. En samkv. síðasta uppgerðum landsreikningi voru þær í árslok 1927 kr. 11288749.77. Það er því ekki lítið spor, sem verið er að stíga, þegar ráðgert er að taka 12 milj. kr. lán, eða nokkru hærra en allar ríkisskuldirnar eru taldar í síðasta landsreikningi.

Þó nú búið sje að veita allar þessar lántökuheimildir, þá virðist mjer samt svo, að það sje mjög athugaverð fjármálastefna, er kemur fram í þessu. Það er nú svo ástatt með okkur, að við búum yfirleitt við góðæri, og lýsir það sjer á margan hátt. í peningamálunum er það svo, að seðlabanki landsins, Landsbankinn, á um 10 milj. kr. erlendis, sem hann telur rjettilega geymdar þar, þar sem óvíst er, að fljótlega sje hægt að finna svigrúm fyrir þær til ávöxtunar með því að draga þær inn í landið. Vinnubrögðin í landinu eru svo, að heita má að allar hendur sjeu starfandi. Þegar svona er ástatt, þá er mjög erfitt að draga stórfje inn í landið, svo að það verði til nokkurs raunverulegs gagns. Það fást ekki fleiri hendur til þess að vinna. Það er því spurning, hvort það borgar sig að fá erlent fje inn í landið eins og nú stendur á. Aukning allskonar starfa og framfara í landinu er vitanlega sjálfsögð og nauðsynleg, en það er ávalt hollast, að framþróunin sje stöðug og jöfn, en verði ekki í stórum stökkum annað veifið, en svo kyrstaða á milli þess. Með þeim sveiflum, sem hjer eru á atvinnulífinu, getur lánsfje komið að góðum notum, ef því er veitt inn í landið þegar tímarnir eru erfiðir. Þá hefir það þau áhrif, að það heldur við atvinnunni og styður að aukningu atvinnufyrirtækjanna. Þess vegna er það mín skoðun, að eins og nú stendur á sje ekki rjett að ráðast í það að taka stórlán, nema það fáist með mjög aðgengilegum kjörum.

Af þeim lántökuheimildum, er stj. hefir áður fengið og taldar eru í 2. gr. frv., hafa sumar valdið miklum ágreiningi og sumar eru svo, að jeg álít, að hæstv. stj. ætti alls ekki að notfæra sjer þær. Sjerstaklega vil jeg þar tilnefna heimild til lántöku til þess að byggja nýtt strandferðaskip. Álít jeg það alveg skakt spor að ráðast í slíkt. Vil jeg taka það skýrt fram, að jeg er engu síður á móti því nú, að stj. noti þessa lántökuheimild, en jeg hefi áður verið. Hygg jeg, að bráðum komi úr annari átt till. til umbóta á siglingum og strandferðum hjer við land, sem er miklu betri og kostnaðarminni en að fara að bæta við nýju strandferðaskipi á stærð við „Esju“.— Sama er að segja um brúargerðalántökuheimildina frá 1919. Hún hefir aldrei verið notuð ennþá, því sú stefna hefir verið ríkjandi, að það væri athugavert að nota lánsfje til slíks, og tel jeg það vel farið. Mjer finst fyrir mitt leyti, að það megi alls ekki eiga sjer stað, að lánsfje sje notað til fyrirtækja, er gefa jafnlítinn beinan hagnað og brúargerðir.

Aftur er það annað, sem allir eru sammála um að lána fje til, en það er fyrsti liður þessa frv., stofnfje ríkissjóðs til Landsbankans. Eins og nú er komið löggjöfinni um bankann, má búast við, að þetta lán verði byrði á fjárlögunum. Er þetta einn þáttur í þeirri óheppilegu fjármálastefnu, er hefir verið ríkjandi síðan eftir kosningarnar 1927, er sú breyt. var gerð á Landsbankanum, er sviftir ríkissjóð 100 þús. kr. árlegum tekjum af þessari stofnun. Upphæð þessi var eftir 1. frá 1927 ætluð til þess að ríkissjóður gæti skaffað bankanum nýtt stofnfje án þess að þurfa þess vegna að leggja þungar byrðar á skattborgarana. En eins og nú er orðið, fer það eftir því, hvort hægt er að fá lán með góðum kjörum, hversu skattþegnarnir komast hjá að greiða sjerstakt gjald vegna þessa stofngjalds til Landsbankans. Munurinn á þessum 2 bankalögum er sá, að samkv. fyrri l. frá 1927 á Landsbankinn að greiða 6% af öllu stofnfje sínu, bæði gamla og nýja innskotsfjenu, en eftir lögunum frá 1928 aðeins 6% af viðaukanum. Það er mjög óvíst, að það fáist svo góð lánskjör, að hægt sje að standa straum af því erlenda láni með þeim 6%, er bankinn greiðir.

Jeg álít samt rjett, að stj. fái þessa lántökuheimild, og að hún fái hana skýrt og vel orðaða, svo að engin fyrirstaða geti orðið á því formsins vegna að fá hin bestu lánskjör, sem fáanleg eru. En þó jeg telji rjett að veita heimildina, þá vil jeg þó taka það skýrt fram, að jeg er að ýmsu leyti ósammála þeirri fjármálastefnu, er leitt hefir til þess, að svo stór lántaka er framundan.