15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Fjmrh. (Einar Árnason):

Eins og hv. þdm. muna, þá afgr. síðasta þing ýmsar lántökuheimildir handa ríkisstj. Sama hefir og þetta þing gert. Þessar lánsheimildir eru í mörgu lagi og er erfitt að sameina þær, er til lántöku kemur. Þegar þessi lög voru samin, var það vitað, að til framkvæmda á þeim var óhjákvæmilegt að taka lán. Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, er fram komið til þess að setja þessar lántökuheimildir í ein lög, svo greiðara verði um lántöku, þegar að því kemur, fyr eða síðar, að lán verði tekið til þess að fullnægja þeirri starfrækslu, sem lögin mæla fyrir, að sje gerð. Það er reglan, þegar lán er tekið í útlöndum, að spurt er um heimild þá, er ríkisstj. hafi til lántökunnar, Er þá erfitt að sýna þær heimildir, sem felast í hinum og þessum lögum. Miklu hægara er að hafa aðeins ein lög, er vísa má til. 1. gr. þessa frv. er skilyrðislaus heimild til að taka alt að 12 milj. kr. lán. í 2. gr. eru svo talin upp flestöll lög, sem nú eru í gildi og lántökuheimild fela í sjer. En þó þetta sje hjer upp talið, þá er ekki þar með sagt, að þessi heimild verði að fullu notuð. Verður það að fara eftir atvikum og verður að ráða fram úr því hvað sitja skuli fyrir og hvað búa verður á hakanum. Frv. þetta er borið fram af hv. fjhn. Ed. fyrir mín tilmæli, og var enginn ágreiningur um það í n. eða í hv. Ed. Var þar álitin þörf að safna þessu svo saman sem hjer er gert. Vænti jeg þess einnig, að þessi hv. deild geti fallist á að setja umræddar lánsheimildir í þetta form. Hefi jeg beðið formann hv. fjhn. þessarar deildar að taka frv. þetta til athugunar í þeirri n., svo frv. geti fengið sem greiðasta afgreiðslu hjer í þessari hv. deild, þar sem það þarf að afgreiðast næstu daga. Jeg veit ekki, hvort hv. fjhn. hefir getað tekið frv. til athugunar. Ef svo er eigi, legg jeg til, að því verði vísað til hennar. En komi fram yfirlýsing frá hv. formanni þeirrar n. um, að frv. hafi verið athugað og. að n. geti fallist á það, þá tel jeg þarflaust að vísa því til n. hjer. — Vildi jeg gjarnan óska eftir áliti hv. form. fjhn. um þetta.