24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Frsm. (Lárus Helgason):

Eins og nál. ber með sjer, leggur nefndin til, að frv. þetta nái fram að ganga. Við erum á eftir öðrum þjóðum í þessu efni og því er kominn tími til, að úr því verði bætt, og þetta frv. er komið fram til þess. Nefndin gerði nokkrar brtt., og skal jeg gera grein fyrir þeim í fám orðum. Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin borið fram brtt. við 2. gr. 5. tölul., sem gengur í þá átt, að starfsemi stofnunarinnar skuli hagað eftir fyrirmælum atvinnumálaráðuneytisins, en skuli inna af hendi rannsóknir fyrir stjórn Búnaðarfjel. Íslands og stjórn Fiskifjel. Íslands, sbr. 5. lið. Þar segir svo, „aðrar rannsóknir, sem atvinnumálaráðuneytið óskar“, og síðar, að haga skuli allri starfsemi stofnunarinnar eftir ráði Búnaðarfjel. Íslands og Fiskifjel. Íslands. Nefndin kunni ekki við þetta orðalag, en vildi taka það skýrt fram, að atvmrh. hefði yfir þessu að segja. Brtt. tekur þetta líka skýrt fram, að atvmrh. hefir yfirráðin og að haga skuli starfsemi stofnunarinnar eftir fyrirmælum hans.

Þá kemur brtt. við 3. gr. 1. mgr., að í stað „forstöðumaður stofunnar og atvmrh. telja“ komi: atvmrh. telur. Hjer eru atvmrh. ætluð yfirráðin, og nefndin telur óviðeigandi með öllu, að forstöðumanni þessarar stofnunar sje gefið svo mikið vald eins og frv. gerir ráð fyrir, en vill, að yfirráðin sjeu í höndum atvmrh. Þá kemur næst brtt. við 4. gr. Hjer eru atvmrh. ætluð yfirráðin, en ekki forstjóranum. Að sjálfsögðu getur ráðh. haft hann sem ráðunaut og tekið tillit til vilja hans.

Þá kemur brtt. við 5. gr. Hjer er atvmrh. ætlað að ráða forstöðumann, en ekki stjórninni í heild sinni. N. finst sjálfsagt, að atvmrh. ráði hjer einn, en ekki stjórnin í heild, því að þetta heyrir undir hans verksvið. Þá voru ennfremur sett þau ákvæði um launin, að þau skuli ekki vera hærri en laun prófessora háskólans. Í frv. eru engin takmörk sett um laun þessa manns, en n. álítur rjett að gera það.

Þá kemur brtt. við 7. gr. Hjer er atvmrh., en ekki forstöðumanninum, ætlað að setja gjaldskrá fyrir það starf, er stofan innir af hendi fyrir einstaka menn, en þar skal atvmrh. styðjast við till. forstöðumanns stofnunarinnar.

Yfirleitt eru allar þessar brtt. n. á þá leið, að takmarka vald forstöðumanns þessarar stofnunar, en færa það í hendur atvmrh. Jeg hefi svo ekki fleira um þetta mál að segja, en vona, að brtt. n. verði vel tekið og að frv. verði samþ.