16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Magnús Jónsson:

* Jeg held, að hún hafi að nokkru leyti verið orðum aukin fregnin, sem hæstv. fjmrh. hefir fengið upp í stjórnarráð í morgun, að verið væri að hefja alm. umr. um peningamál landsins, þó að jeg mælti nokkur viðvörunarorð vegna þeirra ráðstafana, sem hjer er verið að gera. Annars finst mjer, að þeir, sem mest hafa talað hjer, og þá sjerstaklega hv. þm. V.-Ísf., vera mjer alveg sammála í aðalatriðum málsins, enda þótt hann væri að gera sjer upp andstöðu við mig, að það yrði að fara með mestu varúð, þegar svona stórri peningaupphæð væri veitt inn á peningamarkað okkar í einu.

Þar sem jeg var ekki við 1. umr. þessa máls, fanst mjer ekki nema rjett að minnast á þetta atriði. Hv. þm. V.-Ísf. vildi slá mál mitt niður með því, að jeg hefði sagt, að annarsvegar væri hjer um „deflation“, en hinsvegar um „inflation“ að ræða. Það má vitanlega setja svona mótsetningar fram og láta sýnast eins og þær rekist hvor á aðra. En hjer er það ekki. Það er hvorttveggja fyrir hendi, þó að ekki sjeu í einu gerðar ráðstafanir til þess, að gjaldeyririnn þjóti upp í svipinn og falli svo aftur. Þá er hitt atriðið, að þegar þetta geysilega fje er farið að starfa hjer í landinu, getur það valdið geysilegri verðþenslu og almennri hækkun, og afleiðingin getur orðið sú, að okkar gjaldeyrir falli. Það er óyggjandi reynsla fengin fyrir því, að það er ómögulegt að veita svona miklu fje inn í landið án þess að úr því verði „inflation“. — Það getur nú verið, að nokkru af þessu fje verði varið til að greiða erlendar skuldir. Það væri þá ekki annað en að breyta einni skuld í aðra, eins og í rauninni átti sjer stað 1921 um enska lánið, og raskar það auðvitað engu.

Enska lánið var í rauninni alt stofnað fyrir 1921. Það, sem þá gerðist, var í rauninni ekki annað en það, að mörgum óhagstæðum, uppsegjanlegum lánum var breytt í eitt umsamið lán. öll sú „inflation“, sem af þeirri lántöku hefði átt að leiða, var komin á undan og afleiðingar höfðu sýnt sig. Lántakan 1921 var einungis gerð til þess að „dekka“ það, sem búið var að eyða. Nú er þessu ekki til að dreifa, nema að því leyti, sem Landsbankinn kynni að nota eitthvað af sínum hluta til að greiða erlendar skuldir.

Jeg er reyndar alls ekki viss um, að bankastjórnin myndi telja það hyggilegt að verja því til þess. Miklu fremur gæti jeg haldið, að hún mundi kjósa að láta hagstæð lán standa, með því líka að þingið hefir nú gert ráðstafanir til að skerða starfsfje Landsbankans allmikið, með lögunum um Búnaðarbankann, með því að vjela frá honum sparisjóðsfje, o. s. frv. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þessi lántaka geri miklu meira en halda bankanum við eftir þá skerðingu, sem hann verður fyrir vegna aðgerða þingsins. Sem sagt, jeg gæti trúað, að þar yrði svo þröngt fyrir dyrum, að bankinn sæi sjer ekki fært að greiða sín föstu lán erlendis.

Hv. þm. V.-Ísf. hjelt því fram, að það yrði að ráðstafa þessu fje eins og vitlaus maður mundi gera, til þess að hætta gæti stafað af því, og hæstv. fjmrh. virtist vera honum sammála um það. Annað lagði hann eiginlega ekki til málanna.

Nei, þess þarf ekki með. Við þurfum ekki að haga okkur eins og brjálaðir menn, heldur nægir alveg óvarkárni og þekkingarleysi til þess að stórtjón geti hlotist af þessu. Það er margreynt bæði hjer og erlendis, að af þessu leiðir ógegnd í viðskiftum og hrun á eftir. Þetta er einmitt það, sem erlendir fjármálamenn eru altaf að stríða við, og þeim hefir ekki tekist að ráða bót á því. Þeir eru þó ekki allir brjálaðir.

Fyrv. fjmrh., Magnús heitinn Kristjánsson, lýsti því einhverntíma yfir, að það væri ekki til neitt ákveðið viðskiftalögmál. Jeg vil nú ekki segja, að núv. hæstv. fjmrh. muni gefa slíka yfirlýsingu. A. m. k. geri jeg ráð fyrir, að hann sjái, að 12 milj. kr. hljóti að hafa róttæk áhrif á markaðinn og öll viðskifti innanlands.

Hv. þm. V.-Ísf. hjelt því fram, að efni til bygginga og strandferðaskipið mætti eins kaupa gegnum erlenda banka og kæmi það fje þá aldrei inn í landið. En þetta eru framkvæmdir, sem leiða af sjer aukinn innflutning. Verslunin fjörgast, mikil vinna, hátt kaup, mikill innflutningur, ekki síst af óþarfa vörum.

Það kemur ekki málinu við, hvernig menn drífa upp fje til kaupanna. Þetta er fölsk kaupgeta, fengin án þess að nokkuð sje framleitt heima fyrir á móti. En hitt er satt, sem hv. þm. sagði, að þetta getur með tímanum skapað kaupgetu.

Jeg geri þó ekki ráð fyrir, að nýtt strandferðaskip skapi nýja kaupgetu, þótt jeg efist ekki um, að það verði landi og lýð til gagns. Sömuleiðis er jeg vantrúaður á, að skrifstofuhúsið og prentsmiðjan verði til þess að skapa raunverulega kaupgetu.

Nei, þetta er fölsk kaupgeta og þess vegna finst mjer ekki að ófyrirsynju, þótt einhver verði til þess að benda á það, hvað mikil ábyrgð fylgir þessum ráðstöfunum. Það er að vísu rjett, að þetta hefði fremur átt að ræðast í sambandi við þær einstöku lagasetningar, sem hafa leitt þetta frv. af sjer. En þessar ýmsu lagaheimildir voru heldur ekki samþ. mótmælalaust. (HStef: En þó alt löglegar heimildir). Já, en þeir háttvirtir þingmenn, sem hafa samþykt þær, hafa anað áfram án þess að gera sjer grein fyrir, hvað þeir voru að gera, og jafnvel ekki búist við, að til lántöku þyrfti að koma með sumt einstakt. (Fjmrh.: Það er jafnóvíst fyrir þessu. — ÓTh: Stj. hefir eftir ýmsum lögum heimild til að taka 20 milj. að láni). Já, jeg geri ráð fyrir því, ef teknar eru með sjerstakar ráðstafanir frá ófriðarárunum, þegar öllu var slept lausu. En jeg hygg, að alment hafi verið litið svo á þessar eldri ráðstafanir, að þær skyldu falla úr gildi, þegar það ástand, sem leiddi þær af sjer, væri um garð gengið.

Jeg held, að við, hv. þm. V.-Ísf. og jeg, sjeum í rauninni alveg sammála um, að hjer verði að fara varlega. En munurinn er sá, að honum finst þetta svo sjálfsagt, að óþarfi sje að vera að eyða orðum að því. Það er nú svo um margt. T. d. má segja, að það sje svo sjálfsagt fyrir hvern seðlabanka að gefa ekki út of mikið af seðlum, að óþarfi sje að segja bankastj. fyrir um það; hún muni sjá það sjálf. En bæði okkar þing og annara þjóða hafa þó talið sjálfsagt að láta þetta til sín taka. Nei, aðvörunarorð eru aldrei óþörf, jafnvel þótt ekki sje gert ráð fyrir því vitlausasta, sem hægt er að gera.

Ef litið er á þessa lántöku í sambandi við gengið, þá er það ljóst, að með henni er einmitt verið að afgreiða gengismálið. Það er meiningin.

Jeg fyrir mitt leyti vil ekki heimila stj. þessa lántöku. Jeg vil ekki með því ýta undir hana að framkvæma hina og aðra vitleysu, sem hv. meiri hl. þingsins hefir veitt heimildir til.

Ræðuhandr. óyfirlesið.