06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

19. mál, landsreikningar 1927

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Fjhn. hefir athugað frv. þetta og borið það saman við landsreikningana og fskj. með þeim og engar talnaskekkjur fundið. Álit n. má sjá á þskj. 448, en við það vildi jeg bæta nokkrum aths. um útkomu ársins 1927. Eins og menn vita, var árið 1926 eitthvert hið versta fyrir atvinnuvegina, sjerstaklega sjávarútveginn. Enda sjer það á tekjum ársins 1927. Á því ári brugðust sumir tekjuliðir óvenjulega, og skal jeg nefna þessa liði:

Tekjur undir áætlun:

Af tekju- og eignaskatti 213 þús. kr.

— erfðafjárskatti 10 — —

— áfengistolli 224 — —

— vörutolli 208 — —

— víneinkasölu 175 — —

— bönkum og vaxtafje 91 — —

Samtals 921 þús. kr.

Á árinu var tekjuhalli ríkissjóðs um 1 milj. kr., eða aðeins lítið eitt hærri en það, sem tekjurnar af þessum 6 liðum reyndust lægri en áætlað var. Hinsvegar hafa og nokkrir liðir farið fram úr áætlun, svo sem aukatekjur 114 þús. kr., vitagjald 75 þús. kr., stimpilgjald 50 þús. kr., útflutningsgjald 118 þús. kr., tóbakstollur 174 þús. kr., kaffi- og sykurtollur 200 þús. kr. En til þess hefir verið ætlast, að tekjuáætlunin væri sett það lágt, að vissa væri fyrir, að tekjurnar yrðu mun hærri en áætlunin í fjárl. Þá hafa einnig margir liðir gjaldanna farið nokkuð fram úr áætlun. Skal jeg nefna þessa:

Alþingiskostnaður 37 þús. kr., ráðuneytið og utanríkismál 143 þús. kr., dómgæsla og lögreglustjórn 126 þús. kr. (Þar af 106 þús. kr. til landhelgisgæslu). Annar sakamála- og löggæslukostnaður um 50 þús. kr., vegabætur 162 þús. kr., samgöngur á sjó 70 þús. kr. (Þar af Esja 65 þús. kr., og er þó ótalið vextir af kaupverði og fyrning skipsins, en það má áætla um 100 þús. kr.). Vitamál 28 þús. kr., til verklegra fyrirtækja 43 þús. kr., þá fór styrkur samkv. jarðræktarlögunum 129 þús. kr. fram úr áætlun, til almennrar styrktarstarfsemi 375 þús. kr., þar af til berklavarna 360 þús. kr. og til ellistyrktarsjóða 10 þús. kr. óviss útgjöld 67 þús. kr., þar af eru óvænt gjöld endurgreiddur tollur fullar 28 þús. kr., uppfylling kirkjugarðs í Reykjavík 14 þús. kr., vextir af lánum Karls Einarssonar 7 þús. kr., vinna á Þingvöllum 7 þús. kr. Þá eru útgjöld samkv. l. og fjáraukalögum 625 þús. kr. — Þar af Flóaáveitan: framlag 42 þús. kr., lán 85 þús. kr., hafnargerð í Vestmannaeyjum 184 þús. kr., tillag til ræktunarsjóðs 50 þús. kr., húsabyggingar ríkisins 135 þús. kr. og í fjáraukalögum 16 þús. kr., breyting á tolllögum 24 þús. kr., útgáfa bankavaxtabrjefa 8 þús. kr.

Tekjuhalli ársins 1927 er, eins og áður er sagt, 1 milj. kr., og má því segja, að hann stafi af því, að tekjurnar hafa brugðist, að upphæð 920 þús. kr. Að sjálfsögðu höfðu nefndarmenn ekki tíma eða aðstöðu til þess að athuga fylgiskjöl landsreikninganna, svo að um „kritiska“ endurskoðun geti verið að ræða. N. verður því, að öðru en talnasamanburði og samlagningu talna, að fara eftir till. yfirskoðunarmanna, að því leyti sem ástæða virðist til.

Þær aths., sem yfirskoðunarmenn hafa gert og ekki virðist nægilega svarað af ráðherra, eru:

1. Sýslumanni Strandasýslu er greidd uppbót á skrifstofukostnaði 700 kr. N. óskar að fá upplýst, af hvaða ástæðum þessi upphæð er greidd, þar sem talið er, að sýslumaður þessi hafi ekki og þurfi ekki aðstoð í skrifstofunni.

2. N. vill beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. stj., að láta selja sem fyrst þær eignir, sem ríkissjóður hefir fengið upp í skuld fyrv. bæjarfógeta Karls Einarssonar. Það mun jafnan reynast óhagstætt ríkissjóði að eiga hús til þess að leigja þau út, því jafnan munu gerðar fyllri kröfur um viðhald og endurbætur á því, sem ríkið á, heldur en gert er til einstakra manna. Nú er góðæri og því von um að geta selt þessar húseignir góðu verði. Þá telja og yfirskoðunarmennirnir rjett, að eignir þessar sjeu taldar á eignaskrá ríkisins ásamt öðrum eignum, ef ekki verður af sölu nú bráðlega. En þar sem eignir þessar verða væntanlega seldar bráðlega, gerir n. enga till. um það.

3. Þá vill meiri hl. n. taka það fram, að hann telur kostnað við hestahald og bílaeign ranglega færðan landhelgissjóði til gjalda, og gerir till. um, að eftirleiðis verði slíkur kostnaður færður á aðra liði landsreikningsins. Það er máske ekki nema eðlilegt, að veislukostnaður, sem greiddur er beint vegna erlendra manna, sem hingað koma vegna landhelgisvarnanna, sje greiddur af landhelgissjóði, því ekki er hægt að ætlast til, að forsrh. haldi allar slíkar veislur fyrir risnufje sitt. En ekki er hægt að segja, að veisluhald og bílaeign sjeu viðkomandi landhelgissjóði. Og þann kostnað á landhelgissjóður ekki að greiða.

4. Þá vill n. beina því til hæstv. stj., hvort ekki væri rjett að Alþingi fengi íhlutunarrjett um skipun stj. Fiskifjelags Íslands á svipuðum grundvelli og nú er um Búnaðarfjelagið.

5. Loks vill n. eins og fyr leggja ríka áherslu á, að innheimtar sjeu útistandandi verslunarskuldir ríkissjóðs, og skal jeg í því sambandi lesa hjer upp skrá yfir þessar skuldir. Þær voru hjá öllum landsverslunum í árslok:

1925 1926 1927

Eldri landsv. 445000 395000 341000

Tóbakseinkas. 127000 71000 55000

Olíueinkasala 780000 903000 1082000

Áfengisverslun 468000 430000 296000

Samtals 1820000 1779000 1774000

Á árinu 1928 hafa þessar skuldir lækkað nokkuð, að því er reikningshaldarar hafa tjáð n., eða sem hjer segir:

Olíuskuldir um 318000

Tóbaksviðskifti — 8000

Eldri viðskifti — 30000

Áfengisverslun — 158000

Alls 514000

Útistandandi skuldir ríkissjóðs eru því í árslok 1928 um 1 milj. og 260 þús. Þetta er að vísu góð lækkun á einu ári, en betur má ef duga skal.

Jeg vænti, að hæstv. fjmrh. taki vel í þessa málaleitan n. um að lögð verði rík áhersla á innheimtuna. Það er líka mín persónulega skoðun, að rjettara sje að lúka þessu sem fyrst, jafnvel þótt lítið fáist, til þess að menn viti, að hverju er að ganga í þessu efni. Það er miklu betra að fá litla borgun strax en að láta skuldina standa og fá svo ef til vill ekkert.

Jeg vil sjerstaklega beina því til athugunar hæstv. ráðh., að í árslok 1927 voru fyrirliggjandi tunnubirgðir landsverslunar, er námu um 220 þús. kr. Jeg vænti, að þessar birgðir sjeu nú seldar að einhverju leyti, eða ef til vill allar, en ef það er ekki, væri æskilegt, að þessu væri sem fyrst komið í verð. (HV: Þessar tunnur munu nú að mestu leyti seldar). Hv. 2. þm. Reykv., sem mun vera þessu kunnugur, segir, að tunnurnar sjeu nú að mestu seldar, og er það vel, ef svo er.

Að öðru leyti hefir fjhn. ekkert að athuga við frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, með tilvísun til aths. yfirskoðunarmanna.