06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

19. mál, landsreikningar 1927

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. fjhn. með fyrirvara. Þó er ekki fyrirvarinn bundinn við till. n. um samþ. frv., heldur aðeins um 5. málsgr. nál., um hestahald og veislukostnað landhelgissjóðs. Við það atriði er minn fyrirvari bundinn.

Það hafa áður, a. m. k. tvisvar, ef ekki þrisvar, komið fram aths. frá yfirskoðunarmönnum um þetta, og fjhn. og þingið hefir ekki sjeð ástæðu til að taka þær til greina, en látið sjer nægja svör stj., er hafa verið á þá leið, að þar sem þessi kostnaður væri vegna landhelgisgæslunnar, þá væri eðlilegt að færa hann landhelgissjóði til útgjalda. Nú hefir n. tekið öðruvísi í þetta, og að því leyti er jeg henni ósammála. Jeg skal þó ekki tala langt mál um þetta nú, en vísa aðeins til svars hæstv. fjmrh. og þeirra ástæðna, sem áður hafa verið taldar fullnægjandi í þessu efni.