26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir leitt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli ekki hafa fylgst með umr. um mál þetta í hv. Ed., því að það, sem hann bar fram nú, kom fram í þeim og var þá ítarlega skýrt.

Það, sem hv. þm. sagði um álit búnaðarþingsins á þessu máli, var ekki rjett. Hv. þm. sagði, að það hefði ekki gert annað en viðurkenna þörfina fyrir slíka rannsóknarstofu, sem hjer er farið fram á að koma upp. Nei, það beinlínis skoraði á þingið að samþykkja einmitt þetta frv.

Það er aldrei nema rjett hjá hv. þm., að sumt af þeim verkefnum, sem stofnun þessari er ætlað að vinna samkv. 2. gr. frv. þessa, heyrir að einhverju leyti undir þær rannsóknarstofur, sem nú eru. En eins og jeg tók fram í hv. Ed., var það eingöngu vegna búfjársjúkdómanna, sem farið var á stað með þetta mál, því að þær efnarannsóknarstofur, sem við höfum nú, hafa ekki þeim kröftum á að skipa, sem útheimtast til rannsókna á þeim. Að farið er fram á svona víðtæka heimild í frv., stafar af því, að þegar jeg fór að ræða þetta mál við meðstjórnendur mína í Búnaðarfjelagi Íslands og fleiri, þá lögðu þeir allmikla áherslu á, að stofnun þessi væri ekki eingöngu bundin við búfjársjúkdómana, og fyrir því er fleira dregið hjer inn undir en beinlínis er ætlast til, að komi til framkvæmda nú. Jeg get því lýst hinu sama yfir hjer og jeg lýsti yfir í Ed., að jeg mun ekki nota heimild þessa, enda þótt hún sje svona rúm, til annars en til þess að gera ráðstafanir vegna búfjársjúkdómanna. Má því vel vera, að ekki verði sett á stofn sjerstök stofnun fyrir þessar sakir, heldur verði þessi rannsóknarstarfsemi sett í samband við þær stofnanir, sem fyrir eru, því að hjer er aðeins um heimildarlög að ræða. Í þessu sambandi vil jeg benda á, hvernig jeg hefi áður notað slíkar heimildir sem þessar, t. d. heimildina um einkasölu á tilbúnum áburði. Samkvæmt henni hafði jeg heimild til þess að stofna nýja landsverslun með tilbúinn áburð, en jeg gerði það alls ekki, heldur fól jeg Sambandi íslenskra samvinnufjelaga að annast þá verslun, og það fyrir mjög lítinn pening. Þetta, sem hjer er um að ræða, er því ekkert annað en það, hvort þingið vilji gefa mjer heimild til þess að ráðstafa þessum málum á þann hátt, sem jeg tel hagkvæmastan til þess að ná best og ódýrast því marki, sem hjer er stefnt að. Að vísu er ekki hægt að segja um það fyrirfram, hvaða kostnað muni af þessu leiða, meðal annars af því, að ennþá er ekki hægt að vita með vissu, hvort hægt verður að fá færan mann innlendan til þess að framkvæma þessar rannsóknir.