16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

19. mál, landsreikningar 1927

Jón Þorláksson:

Til viðbótar við aths. hv. frsm. vil jeg leyfa mjer að leiða athygli að því, að rekstrartekjur ríkissjóðs eru á reikningi II, undir 5. gr., vantaldar um 109400 kr., en aftur er upphæðin í reikningi III (sjóðreikningi), endurgreidd lán og seldar eignir, oftalin um sömu upphæð. Þetta er talin á 11. þskj. afborgun af skuld áfengisverslunar ríkisins, en er ekki annað en tekjueftirstöðvar frá áfengisversluninni 1926, sem átti að greiðast í ríkissjóð á því ári, en hefir dregist og á að teljast með rekstrartekjum 1927, þar sem upphæðin kom ekki sem tekjur á landsreikningi 1926. — Þetta er að vísu reikningsfærsluatriði og ekki annað, en sú upphæð, sem reikningurinn telur rekstrarmismun, á þá að lækka um sömu upphæð.

Svo er annað atriði miklu mikilvægara, sem jeg vildi gjarnan fá upplýsingar um hjá hæstv. fjmrh. Á þessum landsreikningi, sem er dagsettur 29. okt. 1928, er innskotsfje Landsbankans talið með eignum ríkissjóðs eins og venja er til. Á reikningi Landsbankans 1927, sem er dagsettur fyr en þessi landsreikningur, er þetta innskotsfje látið falla burtu. Nú vil jeg spyrja hæstv. fjmrh., hvort hæstv. stj. hafi samþ., að þessi liður væri á þennan hátt strikaður út úr reikningum Landsbankans, og hvort það sje tilætlunin að láta þennan lið falla burtu úr eignaskýrslu ríkissjóðs á næsta landsreikningi.