16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

19. mál, landsreikningar 1927

Jón Þorláksson:

Mjer nægir ekki svar hæstv. fjmrh. Þessi úrfelling er gerð á reikningi Landsbankans fyrir árið 1927, og jeg á ekki von á, að hann komi nokkurntíma til landsbankanefndarinnar til úrskurðar. Jeg hefði því gjarnan viljað fá vitneskju um það hjá hæstv. fjmrh., hvort hæstv. stj. væri búin að samþ. þessa úrfellingu. Jeg tel raunar, að hæstv. stjórn hafi ekkert vald til þess að samþ. þessa úrfellingu, því að í landsbankalögunum, sem gengu í gildi áður en landsreikningurinn fyrir árið 1927 kom til úrskurðar, stendur, að innskotsfje ríkisins skuli telja til stofnfjár bankans. Jeg veit ekki, hvernig hægt er að komast framhjá þessu ákvæði, en vildi þó að þessu sinni ekki gera annað en að beina þessari fyrirspurn til hæstv. fjmrh.