16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

111. mál, brunamál

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg skal leyfa mjer að benda á það, að fjhn. mælir einhuga með því, að frv. þetta nái fram að ganga. Jeg skal ekki bæta miklu við það, sem sagt er í grg. frv., en aðeins geta þess, að kostnaður sá, er af því myndi leiða, að frv. yrði samþ., er talið, að ekki þyrfti að verða meiri en 1500–2000 kr., og það er svo lítil upphæð, að ekki er rjett að spara hana þegar jafnmikið er í húfi. Virðingarverð þeirra eigna, sem trygðar eru í Brunabótafjelaginu, nemur nál. 40 milj. kr., og þar sem frv. lýtur að því að vernda svo miklar eignir, virðist mjer ekki áhorfsmál, að það beri að samþ. Auk þess má benda á það, að það getur haft mikla þjóðhagslega þýðingu um skipun brunamálanna í framtíðinni. Brunabótafjelagið vátryggir nál. 5/8 hluta af þessari upphæð, sem jeg nefndi áðan, en ef gott skipulag kæmist á brunavarnir í kaupstöðunum, má ætla, að ekki verði þörf á að endurtryggja svo mikið erlendis, og jafnframt gætu ef til vill lækkað iðgjöldin. Skal jeg að svo mæltu ekki fara fleiri orðum um frv. þetta, en vænti þess, að hv. þdm. fallist á að samþykkja það.