16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

111. mál, brunamál

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil spyrja hv. frsm., hvort n. ætlist til þess, að þetta eftirlit nái til sveitanna, eða aðeins til kaupstaða og kauptúna. Ef eftirlitið á einnig að ná til sveitanna, er sýnilegt, að upphæðin, sem hv. frsm. nefndi, er alt of lág. Sje hinsvegar aðeins átt við eftirlit í kauptúnum og kaupstöðum, þá furðar mig á því, að ríkissjóði skuli ætlað að greiða nokkuð af þessu gjaldi. Fyndist mjer eðlilegra, að Brunabótafjelagið gerði það, enda er það svo vel stætt fjelag, að óþarfi er að hlaupa undir bagga með því um svona litla fjárhæð. Ef eftirlitið nær einnig til sveitanna, gætu hinir sameiginlegu brunabótasjóðir þeirra borið kostnaðinn. — Jeg vona, að hv. þdm. taki ekki þessi ummæli mín þannig, að jeg sje að amast við því að skerpa eftirlitið með brunavörnum landsins. Vil jeg biðja hv. frsm. að upplýsa þessi atriði fyrir mjer, en ef með þarf áskil jeg mjer rjett til að bera fram brtt. við frv. við 3. umr.