16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

111. mál, brunamál

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil þakka hv. frsm. þær skýringar, er hann hefir í tje látið, sem jeg tel fullnægjandi; en jeg get ekki horfið frá því, að mjer finst eðlilegast, að Brunabótafjelagið greiði kostnaðinn að öllu leyti. Jeg skildi síðustu orð hv. frsm. þannig, að hann myndi ekki telja frágangssök, þótt þessu yrði breytt, enda er hjer um að ræða öflugt og vel stætt fjelag og engin þörf á að losa það við þær greiðslur, er það á að bera.

Mjer finst óeðlilegt, að ríkissjóður taki þátt í þessum kostnaði, því að þetta munar fjelagið tiltölulega lítið, en hinsvegar hefir ríkissjóður nóg á sinni könnu og fær margan skellinn. — Jeg vænti þess, að hv. frsm. bregðist ekki illa við því, þótt jeg beri fram brtt. um þetta við 3. umr.