03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

111. mál, brunamál

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Þetta frv. er komið aftur frá hv. Ed. Það hafa verið gerðar á því tvær lítilsháttar breytingar. Önnur er sú, að lögin gangi í gildi þegar, og er ekkert við það að athuga, en má telja til bóta, en hin er sú, að ákveða, að til ársloka 1931 greiði ríkissjóður og Brunabótafjelag Íslands kostnaðinn við eftirlitið að hálfu hvort, en eftir þann tíma greiði Brunabótafjelagið allan kostnað.

Jeg hefi leyft mjer að koma með brtt. við þetta seinna atriði. Jeg hefi ekki haft tækifæri til að bera mig saman við n. um það, en hygg, að eftir því, sem áður var rætt í n., muni nefndarmenn og fylgja því. Brtt. fer aðeins fram á það að láta vera óbundið um það, hver greiði kostnaðinn eftir 1931.

Nú er þetta þannig vaxið, að með brunamálalögunum var ákveðið, hvernig skuli háttað umbúnaði eldfæra og brunavörnum í kaupstöðum og kauptúnum. Þessum ákvæðum hefir ekki verið framfylgt, og því er þörf að setja hjer eftirlit. Vitanlega er það ríkið, sem á að sjá um, að lögunum sje framfylgt. Brunabótafjelagið hefir nú boðist til þess, af því að það á þarna hagsmuna að gæta, að greiða hálfan kostnað af þessu eftirliti, ef það yrði sett upp, og í samráði við hæstv. stj. var þetta frv. flutt.

Það kom fram hjer við umr., að sumum virtist Brunabótafjelagið eiga að greiða allan þennan kostnað. En það er, eins og jeg að nokkru leyti vjek að þá, alveg það gagnstæða. Ríkið ætti að rjettu að borga allan þennan kostnað.

Nú er ekki farið fram á annað með þessari brtt. en að það sje óbundið eftir 1931, hvernig fer með þennan kostnað. Þar með vil jeg ekki segja, að Brunabótafjelagið kynni ekki að vinna til að greiða kostnaðinn eftir 1931. En jeg kann ekki við að ákveða í lögum, að það greiði þann kostnað, sem ríkið á að greiða.

Jeg skal geta þess til viðbótar því, sem jeg hefi áður sagt, að fleiri eiga hagsmuna að gæta í þessu efni en Brunabótafjelag Íslands; það eru brunabótafjelög þau, sem vátryggja innanstokksmuni, og er þó ekki ætlað að bera nokkurn hluta af kostnaði þessum. Áður hefi jeg bent á, að ríkið á mikilla hagsmuna að gæta þarna, þar sem það er í ábyrgð fyrir Brunabótafjelagið. Og það má segja, að ríkið eigi líka hagsmuna að gæta vegna þegnanna, að það geri það, sem hægt er að sporna við, að stórbrunar komi fyrir, því að þeir hljóta altaf að valda miklu tjóni, bæði á eignum manna og atvinnu, og jafnvel á lífi og limum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vænti þess, að hv. deild fallist á þessa till., þar sem hún nálgast samræmi við það, sem áður var samþ. hjer í hv. deild.