03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

111. mál, brunamál

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ekki vil jeg deila mikið um þetta við hv. 1. þm. Skagf. Jeg hefi tekið fram þær rjettu ástæður, sem fyrir þessu eru. Honum finst „ofureðlilegt“, að Brunabótafjelagið eigi að greiða allan kostnað. Jeg hefi sýnt fram á, að það má með rjettu snúa þessu við, — að það sje ofureðlilegt, að ríkið borgi allan kostnað.

Ef maður lítur á Brunabótafjelagið, sem tekur að sjer tryggingarnar, annarsvegar og ríkið hinsvegar sem tvo sjálfstæða aðila, sem það vitanlega er viðskiftalega sjeð, þá horfir þetta þannig við. Ríkið hefir sett lög um útbúnað á eldfærum og brunavarnir. Og fjelagið, sem hefir tekið að sjer vátryggingu á þessum húsum, gerir það vitanlega að því tilskildu, að staðið sje við það, sem gert er ráð fyrir í brunamálalögunum. En þetta hefir ekki verið gert. Það er ríkið eitt, sem á að sjá um, að skilyrði laganna sjeu haldin. En þó að Brunabótafjelagið hafi boðist til, fram yfir skyldu, að greiða hálfan kostnað við þetta eftirlit, þá gefur það enga rjettlætingu fyrir því að heimta, að það greiði hann allan. Ekki fyrir það, að þetta sje svo mikið fjárhagsatriði fyrir Brunabótafjelagið, en þetta er bara óeðlilegt, og rangt að setja svona lög. Og ef það skiftir ekki máli fjárhagslega fyrir Brunabótafjelagið, þá því síður fyrir ríkissjóð. En það er ekki fjárhagsatriðið, sem jeg er hjer um að fást; jeg kann aðeins ekki við, að fjelagi sje gert að skyldu að inna af hendi það, sem ríkið ætti að gera að öllu leyti.