02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jón Þorláksson:

Mjer finst frv. þetta, hvort heldur er óbreytt eða með brtt. þeim, er fram eru komnar, bera það með sjer, að efni þess er ekki nægilega athugað af byggingafróðum mönnum. Jeg sakna þess, að hvorki í grg. frv. nje heldur í nál. er gerður hinn minsti samanburður á kröfum þeim, sem gerðar eru í frv., og kröfum þeim, sem nú eru gerðar í byggingasamþyktum kaupstaðanna. Til að rökstyðja þetta má nefna, að eins og hv. frsm. skýrði 3. lið 1. gr., þá hefir hann ekki við neitt að styðjast, nema þar sem íbúðin veit að götu, en ekki þar, sem svo hagar til, að hús er bygt í brekku undan götu og í bakhlið hússins eru skilyrði fyrir kjallaraíbúð. Þar gæti þó verið full ástæða til að setja ákvæði um, hver fjarlægð þurfi að vera frá næsta húsi. Það er ekki nóg, að gluggarnir snúi mót sólu, ef síðan verður bygt fyrir þá, eins og vel má gera þrátt fyrir ákvæði frv. Ýmislegt fleira af slíku mætti taka fram, þar á meðal það, að það er nokkuð óákveðið skilyrði, að því aðeins megi gera íbúð í kjöllurum, að hún sje rakalaus og með sæmilegri umgengni (1. gr. 4. málsl.). Ekki verður hægt að meta umgengnina, þegar ákveðið er, hvort leyfa skuli að byggja íbúðina.

Jeg get tekið undir það með hv. 4. landsk., að fyrsta skrefið, sem stíga á, er að banna að byggja ný hús með kjallaraíbúðum. Það er eðlilegt að byrja á því, ef útrýma á kjallaraíbúðum, eins og æskilegt væri, og er það svo í raun og veru, að með því væri engum óhagræði gert. Menn vita um það, er þeir láta gera uppdrætti að húsum sínum, að þeir mega ekki hafa það snið, sem títt er, að byrja með hæð, sem er hálf ofan og hálf neðan jarðar og verður of kostnaðarsöm til geymslu einnar, en altaf síðri íbúð en á efri hæðunum. Þetta er fyrsta sporið, sem rjett er að stíga, ef löggjöfin á annað borð lætur úrlausn málsins til sín taka. Jeg mun því greiða brtt. hv. 4. landsk. við 1. gr. atkv.

En svo er hitt öllu vandasamara mál, hvernig fara eigi að því að útrýma smám saman þeim kjallaraíbúðum, sem til eru og ekki eru viðunandi. Þar er ekki mikill munur á frv. og brtt. hv. 4. landsk. Hvorttveggja taka það upp, að lögþvinga skuli, að tiltekinn hluti íbúða skuli lagður niður á ári. Samkv. frv. á að gera þetta á 30 árum, en samkv. brtt. á 20 árum. Jeg er ragur við hvorttveggja. Jeg er ragur við að samþ. svona lögþvingun, er ekki tekur neitt tillit til, hvernig á stendur á hverjum stað og hverjum tíma. Rjetti tíminn til að leggja niður ljelegar íbúðir er þegar orðið er sæmilega rúmt um húsnæði og sæmilega auðvelt að afla sjer þess. Ef reka á fólk út úr þessum íbúðum á þeim tíma, er það lendir í vandræðum með að fá annað þak yfir höfuðið, þá er farið skakt að. Jeg hefði því álitið, að ákvæðin um niðurlagningu íbúðanna þyrftu að vera frjálslegri, svo að því mætti haga nokkuð eftir tíma og kringumstæðum.

Nú eru í byggingasamþyktum og heilbrigðissamþyktum ýms ákvæði, er að þessu lúta. Hjer í Reykjavík veit jeg til, að mikill áhugi er fyrir að losna við slæmu íbúðirnar. Og jeg er sannfærður um, að hjer í bænum verður í því efni gert alt það, er fært þykir án nýrrar löggjafar. Sjerstaklega þó, ef það væri í lög leitt, að ekki megi byggja fleiri kjallara til íbúðar. Þar með er settur stimpill á kjallaraíbúðir, er hlýtur að vera hvöt fyrir stjórnarvöldin til að útrýma þeim.

Annars sakna jeg þess, að ekki skuli í grg. vera gerð grein fyrir þeim ákvæðum, er nú gilda um þessi efni. Því þau eru til.

Jeg hefi ekki sjerstaklega kynt mjer þau nýlega. En hitt er mjer ljóst, að löggjöf sem þessi getur ekki farið vel úr hendi, nema bygt sje ofan á þau fyrirmæli, sem nú eru til.