02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jónas Kristjánsson:

Jeg vil minnast hjer á frv. nokkrum orðum, þó margt sje búið að taka fram af því, er jeg vildi sagt hafa.

Mjer finst orðið jarðhús vel mega standa í frv. og ekki saka þó reynt sje að hreinsa málið, og að því miðar fyrirsögn frv. Mjer finst erlenda orðið kjallari vel mega missa sig, þó fengið hafi nokkra festu í málinu. Jeg sje ekki, að orðið jarðhús meiði tilfinningu manna, og menn myndu fljótt venjast því.

Í 4. gr. frv. er það tekið fram, að tilætlunin sje, að allar kjallara- eða jarðhúsaíbúðir verði horfnar á 30 árum. Þar með er fyrir það girt, að hús verði bygð framvegis með þeirri ætlun að hafa í þeim jarðhúsíbúð. Því húsum, sem nú eru bygð, er ætlað að standa lengur en 30 ár. Ákvæði þetta verður því sama sem bann gegn jarðhúsíbúðum og fyrirbyggir, að hús verði bygð með því fyrirkomulagi.

Mjer er ekki vel kunn byggingarsamþykt Reykjavíkur, en jeg sje ekki, að þó einhver ákvæði væru í henni, er kæmu í bága við þetta frv., að þeim megi ekki breyta. Að vísu geta verið til viðunandi jarðhúsaíbúðir, þar sem þær snúa móti sól og eru að miklu leyti ofanjarðar. Og verð jeg að taka undir það og undirstrika, að gætilegra er að taka lengri tímann, 30 ár í stað 20, og færast ekki í fang að ætla sjer að útrýma kjallaraíbúðum á 20 árum. Það gæti orðið til að hækka húsaleiguna og komið bæjastjórnunum í vandræði, ef þeim er markaður svo þröngur bás. Auðvitað er það fyrsta sporið, að útrýma hættulegustu og ljelegustu íbúðunum.

Annars ber ekki mikið á milli frv. og brtt. hv. 4. landsk. Það er alveg eins aðgengilegt að samþ. frv. eins og það er, og sje jeg ekki, að í brtt. felist verulegar umbætur.