04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jón Þorláksson:

Viðvíkjandi aðalbrtt. okkar á þskj. 518, að banna að gera kjallaraíbúðir í nýjum húsum, má eiginlega vísa til grg. fyrir frv. Þar hefir einhver maður komið að, sem hefir þekkingu á byggingum; því að þetta er alveg rjett, sem þar segir, að t. d. á Bretlandi eru kjallaraíbúðir fátíðar, og byggja þeir þó engu dýrara en aðrir. Sannleikurinn er sá, að húsasniðið breytist sjálfkrafa, ef menn hætta að nota jarðhús til íbúðar, en til þess að fátæklingarnir komist upp úr jörðinni, er nauðsyn á lagasetningu um þetta mál.

Þetta er alveg rjett, að frá byggingarinnar sjónarmiði er ekki nokkur nauðsyn á því að leyfa að gera kjallaraíbúðir, því að það mun naumast vera hægt að benda á nokkur dæmi þess, að það sje til óhagræðis, að slíkt sje bannað, ef sá, sem gerir uppdrátt af húsinu, vill leggja sig niður við að haga húsbyggingunni í samræmi við það bann, þannig að alt pláss, sem á að nota til íbúðar, sje ofanjarðar.

Við erum þess vegna með þessari brtt. ekki í ósamræmi við hv. flm. frv., heldur er sporið stigið fult og eftir því, sem í grg. frv. er gefið tilefni til.

Þessu næst vildi jeg benda á það, að verði sú brtt. feld og 1. gr. frv. samþ. eins og hún er nú, eða með þeim breyt., er n. leggur til, þá felur hún í sjer afturför í byggingum kjallaraíbúða, a. m. k. hjer í Reykjavík. Það er nefnil. svo hjer, að byggingarnefnd leyfir alls ekki, að gerðar sjeu kjallaraíbúðir nema við einstaka götur. En ef frv. verður að lögum án þess að tekið sje tillit til þeirra ákvæða, er gilda um vald bæjarstj. og byggingarnefndar til þess að ráða, hvernig bygt er í kaupstöðunum, þar á meðal í Reykjavík, þá verður það aðeins til þess að lögleiða kjallaraíbúðir, ef þær fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í frv. Þetta mundi því aðeins leiða til þess, að meira yrði bygt af kjallaraíbúðum hjer í Reykjavík en nú á sjer stað.

Þá vildi jeg næst leiða athygli hv. flm.brtt. á þskj. 518. Jeg skal og geta þess, að við, sem flytjum brtt. á því þskj., mælum með því, að samþ. verði 2 af brtt. n. við 1. gr. Eru það liðirnir a. og b. í brtt. 1. Höfum við ekki tekið þær upp í okkar brtt., því að það er svo orðað í brtt. n. sem við hefðum helst kosið.

Að síðustu skal jeg geta þess út af því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði um tímabilið, sem útrýming kjallaraíbúðanna á að taka yfir, að jeg er fús að taka það til athugunar til 3. umr., hvort þetta tímabil, 20 ár, sem við gerum ráð fyrir, sje svo þröngt, að hætta sje á því, að það valdi vandræðum, ef því verður framfylgt.