04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2764 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingvar Pálmason:

Hv. 3. landsk. sagði, að það mundi varla valda neinu óhagræði frá byggingarfræðilegu sjónarmiði, þó bannað væri að byggja hús með kjallaraíbúðum. Jeg skal játa, að það má vel vera rjett. En jeg vil þó benda hv. þm. á það, að víða úti um land hagar svo til, að allmikinn gröft þarf þegar hús eru bygð, til þess að fá góða undirstöðu, og er þá beinlínis sparnaður að gera kjallara. Sje nú jarðvegurinn rakalítill og kjallarinn móti suðri, virðist mjer vel geta komið til mála að athuga, hvort ekki sje ástæða að nota hann til íbúðar. Jeg veit nú ekki, hvernig hagar til með þetta hjer í Reykjavík. En ef lögin eiga á annað borð að ná til fleiri kaupstaða en Reykjavíkur, þá verður og að hafa hagsmuni þeirra fyrir augum þegar gengið er frá lögunum. Og jeg veit fyrir víst, að það gæti víða valdið óhagræði, ef kjallaraíbúðir væru algerlega bannaðar.

Þá vildi hv. 3. landsk. skilja það svo, að ef kjallaraíbúðir væru leyfðar samkv. frv., þá væri þar með tekið fram fyrir hendur byggingarnefndar Reykjavíkur. Þetta er hinn mesti misskilningur, því það er skýrt tekið fram, að þær einar kjallaraíbúðir megi leyfa, er fullnægja ákvæðum laganna. En það er hvergi sagt, að ekki megi banna þær, ef heimild er til þess samkv. öðrum lögum. Auk þess stendur í frv., að kjallaraíbúðum skuli útrýmt smátt og smátt, uns þær sjeu alveg úr sögunni.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Jeg er þakklátur hv. 3. landsk. fyrir það, að hann er í efa um það, hvort ákvæðin í brtt. hans um tímabilið sjeu rjett og er fús til að athuga það til 3. umr. Hinsvegar er jeg ekki í neinum efa um það, og þarf engan umhugsunarfrest. Jeg vil ekki fára að samþ. það nú upp á það að kippa því aftur úr við 3. umr. Tel jeg það formgalla að fella það við 3. umr., sem samþ. hefir verið við 2. umr. Læt jeg svo skeika að sköpuðu með þetta frv., en treysti því, að hv. flm. fylgi hinu upphaflega frv., og svo ef þeir vilja fallast á einhverjar brtt., þá verði það brtt. meiri hl. allshn.