29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Þetta mál er komið hingað aftur frá Nd. Nefndin hefir athugað þær breytingar, sem orðið hafa á frv., og skal jeg fara nokkrum orðum um þær.

Fyrsta breyt. er við 5. lið 2. gr. í frv. þegar það fór hjeðan var gert ráð fyrir því, að rannsóknárstofunni væri eiginlega skylt að framkvæma þær rannsóknir, sem atvinnumálaráðuneytið óskaði eftir, svo og Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið. En Nd. hefir breytt þessu þannig, að stofan á að framkvæma rannsóknir þær, sem atvinnumálaráðuneytið óskar, og eftir því sem við verður komið rannsóknir fyrir Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið. Nd. hefir þá gert þá breytingu, að í stað þess að í frv. var gert ráð fyrir, að starfseminni verði hagað eftir tillögum Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelagsins, á nú að haga henni eingöngu eftir fyrirskipunum atvinnumálaráðuneytisins. N. sjer ekki ástæðu til að leggja á móti þessu.

Þá er næst breyting á 3. gr., um það, að vissum opinberum starfsmönnum sje skylt að láta stofnuninni í tje aðstoð í þeim starfsgreinum, er þeir rækja. Þetta ákvæði var eins í frv., þegar það fór hjeðan úr deild; en hjer er með breyt. gert ráð fyrir, að atvmrh. einn úrskurði, hvenær það er nauðsynlegt. Hjer er örlítið rýrt vald forstöðumanns stofnunarinnar, en lagt í hendur ráðh.

Og sama er að segja um breytinguna á 4. gr., að með henni er það beint lagt undir atvmrh. að ákveða um tilraunir við búfje, og hefir n. ekkert við það að athuga.

Þá er ein viðbótartill. frá hv. Nd. við 5. gr., um laun forstjóra stofnunarinnar, og ákveðið, að þau skuli ekki vera hærri en laun prófessora við háskólann. Virðist það vera allvirðuleg laun, enda þarf svo að vera, og sá n. ekki ástæðu til að hafa á móti þessu.

Þessar breytingar Nd. eru svo smávægilegar, að n. þótti ekki ástæða til að andæfa þeim. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kemur frá Nd., og mjer skildist, að hv. minni hl. hefði ekkert á móti því.