18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

109. mál, innflutningur sauðnauta

Frsm. (Jón Sigurðsson):

* Eins og grg. frv. sýnir, er þetta frv., sem hjer er á ferðinni, ekkert nýmæli. Laust eftir aldamót voru veittar 10 þús. kr. í því skyni að flytja inn sauðnaut. Minnir mig, að svo stæði á, að norskur skipstjóri byðist til þess að flytja dýrin til landsins, en þessi fyrsta tilraun fórst fyrir, af því að skipstjórinn stóð ekki við loforð sín. Nú á seinni árum hefir vaknað aftur mikill áhugi á þessu máli. einkum vegna rita Vilhjálms Stefánssonar um þetta efni, þar sem hann hefir sýnt fram á, hvaða framtíðargagn gæti orðið að þessum dýrum bæði hjer og annarsstaðar. Hefir mönnum því fundist ástæða til að fara að athuga þetta mál fyrir alvöru.

Því má ekki gleyma, að við eigum víðáttumiklar óbygðir og meira haglendi að tiltölu við fólksfjölda en flestar aðrar þjóðir. Sýnist full ástæða til að nota þetta land eftir föngum. Skal jeg benda á það til hliðsjónar, að Norðmenn hafa nú síðustu árin aukið stórum hreindýrarækt hjá sjer, og einkum til þess að fá aðstöðu til að nota þann gróður, sem annars rotnar niður og kemur að engu gagni.

Jeg tel það fyllilega íhugunarvert, hvort við ættum ekki að fara svipað að og Norðmenn í þessu efni og reyna að nota að einhverju leyti heiðagróðurinn hjer á landi. Virðist mjer þá standa næst að reyna, hvort þessi óvenjuharðgerðu dýr, sem hjer er um að ræða, sauðnautin, geti ekki þrifist hjer.

Talið er, að sauðnautunum í Grænlandi fækki óðum. Þau eiga erfitt með að forða sjer og verða því hrönnum saman mönnum og dýrum að bráð. Ekkert er sennilegra en að þeim verði útrýmt að mestu eftir fáa áratugi. Því er rjett að grípa tækifærið nú, meðan nóg er af þeim.

Ekki þýðir að spá neinu um það, hvernig sauðnaut myndu þrífast hjer á landi. En landbn. sjer ekki eftir dálítilli fjárupphæð til tilraunar í þá átt. En hún treystir ekki fyllilega á framtak einstaklinganna í þessu máli og leggur því til, að stj. beiti sjer bæði fyrir því, að dýrin verði útveguð og tilraunastöð komið upp. Hefir n. stungið upp á, að sú tilraunastöð yrði á Norður- eða Austurlandi. Telur hún, að skilyrðin muni vera þar betri en á Suður- og Vesturlandi, af því að tíð er þurviðrasamari og minni áfreðar. Þó gerir n. staðinn ekki að neinu kappsmáli og getur vel gengið inn á brtt. hv. þm. Borgf. til samkomulags. En hvar sem dýrin eiga að vera, þurfa þau vitanlega eitthvert aðhald, en þó eigi svo þröngt, að að þeim kreppi til muna.

Sje jeg svo eigi ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Hepnist sú tilraun, sem hjer er um að ræða, telur n. að það myndi verða til mikilla hagsmuna íslenskum landbúnaði, einkum bændum þeim, er fram til dalabúa og minst skilyrði hafa til ræktunar á jörðum sínum.

Ræðuhandr. óyfirlesið.