18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

109. mál, innflutningur sauðnauta

Pjetur Ottesen:

1 Mjer þykir gott til þess að vita, að áhugi skuli vera að aukast í þá átt að flytja þessi nytjadýr inn í landið. Hjer í hv. deild eru nú komnar fram 2 till. um þetta efni. önnur er frv. hv. landbn., sem hv. 2. þm. Skagf. talaði fyrir áðan. Hin er till. hv. fjvn. um tuttugu þús. kr. fjárveitingu til að hefjast handa í þessu skyni.

Eftir upplýsingum, sem fyrir liggja um lifnaðarháttu þessara dýra, má ætla, að þau muni þrífast mjög vel hjer á landi. Aðalástæðan til þess, að áhugi vaknaði á innflutningi þeirra, mun. eins og hv. frsm. tók fram. eiga rót sína að rekja til skrifa Vilhjálms Stefánssonar. En upplýsingar um þessi dýr hafa líka komið úr annari átt. Maður sá, er Vigfús heitir og er kallaður Grænlandsfari, fór árið 1913 þvert yfir Grænland ásamt dönskum heimskautafara. Leið þeirra lá einmitt yfir þau svæði, þar sem þessi dýr ala aldur sinn. Kyntist Vigfús þá lifnaðarháttum þeirra. Veiddu þeir fjelagar nokkur þeirra sjer til matar og fjell kjötið vel í geð. Ull er á þessum dýrum, eins og kunnugt er, og ganga þau úr reifi einu sinni á ári eins og sauðfje. Ekki er mjer kunnugt um gæði ullarinnar, en hygg þó, að hún muni vera til margra hluta nytsamleg. Mjer er auk þess kunnugt af upplýsingum, að ekki muni erfitt að handsama þessi dýr. Þau eru spök og flýja ekki, þó að hætta sje á ferðum, heldur þjappa sjer saman í hópa. Vigfús Grænlandsfari segir, að mjög auðvelt sje að ná þeim.

Hv. þdm. mun vera kunnugt, að fyrir nokkrum árum var myndað hjer í Rvík fjelag manna til þess að ná lifandi sauðnautum og flytja þau hingað til landsins. Þetta fjelag hefir tvisvar leitað á náðir Alþingis um fjárstyrk. Hv. Nd. hefir brugðist vel við þeirri málaleitan og tvisvar samþ. fjárveitingu Í þessu skyni. Á síðasta þingi var samþ. till. um 20 þús. kr. fjárveitingu, en hún fjell í hv. Ed. Hefir því enn ekkert orðið úr framkvæmdum.

Nú hefir hv. fjvn. tekið upp sömu fjárveitingu og í fyrra. Auk þess hefir hv. landbn. tekið málið í sínar hendur. Er því sýnilega tekið á því fastari tökum en áður. Má því ætla, að leiðangur til að útvega dýrin verði gerður út áður en langt líður.

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt. við 1. gr. frv., um það, að tilraunastöðin skuli ekki eingöngu bundin við Norður- og Austurland. Jeg sje ekki annað en að það ákvæði í frv. n. sje alveg ástæðulaust, því að þótt Norður- og Austurland sjeu vafalaust vel fallin til sauðnautaræktar, má hún engu síður takast í hinum landshlutunum.

Eitt atriði í ráðagerð þeirra manna hjer í Rvík, sem ætluðu sjer að beitast fyrir útvegun dýranna, var að tryggja sjer þá bestu aðstoð og leiðsögn, sem völ væri á. Höfðu þeir til þess augastað á Vigfúsi Grænlandsfara. Nú er svo ástatt, að Vigfús mun vera ráðinn í leiðangur til Grænlands með þýskum vísindamönnum árið 1930. Væri nauðsynlegt að tryggja sjer þá jafnframt aðstoð hans við öflun dýranna, enda mun hann fús til að veita hana. Tel jeg því óhjákvæmilegt, að stj. hefjist handa um undirbúning framkvæmda þegar á þessu ári. Eins og hv. frsm. tók fram, fer dýrunum óðum fækkandi vegna vaxandi eftirsóknar, og er nauðsynin því brýnni á skjótum framkvæmdum. Mjer er kunnugt um, að 2 leiðangrar verða gerðir út til Grænlands í sumar, annar frá Noregi og hinn frá Danmörku. Eru þetta raunar vísindaleiðangrar, en munu þó vafalaust veiða dýr sjer til matar og til að hafa heim með sjer. En alt slíkt miðar að því að útrýma dýrunum. Vil jeg skjóta því til hæstv. stj., að jeg tel tæplega fært að slá á frest, svo að nokkru nemi, þeirri tilraun, sem hjer á að gera með þessi nytjadýr.

Sauðnautin hafast einkum við í grend við St. Jósephsfjörðinn. Þar er öllum frjáls landganga og veiði heimil. Frá þeirri hlið er því ekkert til fyrirstöðu. Það er og alkunna, að þar norður er alt dýralíf einangrað frá umheiminum og engin hætta á, að þaðan berist þeir sjúkdómar, sem búpeningi landsins stafar mest hætta af.

Jeg vil svo enn á ný fastlega mælast til þess, að Alþingi sýni nauðsynlegan skilning á þessu máli, og að ekki standi á hæstv. stj. að gera sitt til að auka framtíðarmöguleika landbúnaðarins íslenska.

Ræðuhandr. óyfirlesið.