18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

109. mál, innflutningur sauðnauta

Gunnar Sigurðsson:

* Jeg er hv. landbn. þakklátur fyrir flutning þessa frv. En af því að það er nú orðið „móðins“ að spyrja um nál., vil jeg spyrja þessa hv. n., hvað líði áliti hennar um frv. mitt um innflutning lifandi dýra. Mjer er raunar kunnugt um, að flestir nm. a. m. k. muni vera því samþykkir. En jeg vildi fastlega mælast til þess við hv. form., að hann sjái um, að álitinu verði skilað hið allra fyrsta, svo að frv. geti komið til umr.

Jeg ætla mjer ekki að halda langa ræðu um sauðnautin. Þó vil jeg benda á eitt stórt atriði í þessu máli. Færi svo, að þessi dýr dæju út á Grænlandi, en sæmileg lífsskilyrði reyndust fyrir þau hjer, myndi verða mikill markaður fyrir þau í öðrum löndum. Mjer er t. d. kunnugt um, að dýragarðar kaupa fágæt dýr mjög háu verði. Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, fer þessum dýrum árlega fækkandi, af því að þau eru varnarlaus gegn nýtísku veiðarfærum.

Jeg vil taka undir þá ósk, að tilraunin verði framkvæmd sem allra fyrst, og efast ekki um, að hún muni bera góðan árangur.

Ræðuhandr. óyfirlesið.