18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

109. mál, innflutningur sauðnauta

Sveinn Ólafsson:

Út af brtt. hv. þm. Borgf. langar mig til að segja nokkur orð.

Jeg sje raunar ekki ástæðu til að amast við brtt., en þó hygg jeg, að hv. landbn. hafi gert rjett í því að tiltaka uppeldisstöðvar þessara dýra á Norður- eða Austurlandi. Jeg dreg það af því, að hreindýrin, sem flutt voru inn fyrir 150 árum og nú hafa leitað uppi þær stöðvar, sem þeim henta best, hafast svo að segja öll við á heiðunum norðan og austan við Vatnajökul. En jeg hygg, að sauðnaut sækist einmitt eftir sama gróðri og hreindýrin, þ. e. hreindýramosa, fjallagrösum og kræðu. Og hreindýrin hafa nú sjálf sagt til um það, hvar á landinu þeim þykir best að vera.

Jafnvel þótt ekkert yrði um það ákveðið í frv., ætti tilraunastöðin samt að verða einhversstaðar á landinu norðaustanverðu. Og jeg hefi mælt þessi fáu orð af því, að jeg teldi hraparlegt, ef tilraunin mistækist eingöngu af því að illa tækist til um val staðarins.