16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

109. mál, innflutningur sauðnauta

Frsm. (Jón Jónsson):

* Jeg var búinn að gleyma því, að jeg er frsm. þessa máls; jeg hjelt, að það væri hv. 5. landsk. Jeg skal því vera fáorður.

Á síðari árum hefir vaknað töluverður áhugi á því að flytja þessar skepnur hingað til landsins. Er það talið gagnleg ráðstöfun, enda er í sjálfu sjer gott, að dýrum fjölgi hjer á landi. Auk þess eru skepnur þessar taldar meinlausar, og geta sennilega þrifist vel hjer á landi, sjerstaklega uppi til heiða. Eru þar haglendi góð og önnur skilyrði til sauðnautaræktar. Nefndin leit því svo á, að ekki væri úr vegi að gera tilraun með þetta, enda er stj. veitt heimild í fjárl. til þess að láta flytja dýrin inn á kostnað ríkisins. Að vísu hafði n. fremur litlar upplýsingar þessu viðvíkjandi fyrir hendi, en hinsvegar eru margir, sem kunnugir eru, á þeirri skoðun, að þessi ráðstöfun geti orðið til hinnar mestu nytsemi. N. vill því gjarnan, að þetta sje reynt, og leggur því til, að frv. verði samþ.

Ræðuhandr. óyfirlesið.