23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

24. mál, héraðsskólar

Einar Jónsson:

Jeg get gjarnan tekið undir það álit manna, að rjettmætt sje að vinna að því að koma betra skipulagi á skóla í sveitum en áður hefir ríkt. Það er því síður en svo, að jeg með þessum fáu orðum, sem jeg ætla að segja, vilji hnekkja frv. því, sem fyrir liggur.

Jeg er fyllilega sammála hæstv. dómsmrh. um það, að fjölga þurfi skólunum. Þó að fastir hjeraðsskólar sjeu á þeim 4 stöðum, sem nefndir eru í frv., er hætt við, að einhverjum fyndist þeir vera útundan. í þessu sambandi vil jeg minnast á þá hugmynd, sem vakað hefir fyrir Rangæingum á síðari árum. Okkar ágæti sýslumaður, Björgvin Vigfússon, hefir manna mest og best barist fyrir því að fá henni framgengt. En samkomulag hefir ekki náðst í þessu máli. Í síðastl. nóvember var haldinn aukafundur í Rangárvallasýslu einungis til þess að ræða þetta skólamál. Meiri hl. sýslunefndar var samþ. hugmynd sýslumanns. Til sýnis fyrir sýslunefndina hafði hann samið frv. með glöggum og mikilsverðum aths., og var tilætlunin sú, að frv. væri lagt fram hjer á Alþingi sem fyrst. Jeg veit samt ekki til, að það hafi verið gert. Hitt veit jeg, að sýslumaður vonaði fyrst, að stj. mundi taka þessu frv. vel og gera það að stjfrv., en sú von hans var farin að dofna, þegar leið að þingtímanum. Gerði hann sjer þá von um, að mentmn. þessarar hv. deildar tæki málið að sjer til flutnings og meðmæla, en sú leið mun enn vera óviss. Jeg sje þó ekki betur en að það sje blátt áfram knýjandi skylda gagnvart Rangæingum að leggja þetta frv. fram í þinginu.

Eitt af því, sem sýslumaður hugsar sjer í þessu máli, er að innleiða vinnuskyldu fyrir nemendur. Þeir eiga að leggja fram 7 vikna vinnu eitt vor, og þeim sömu mönnum er síðan leyft að sækja skólann sjer að kostnaðarlausu í 6 mánuði veturinn næsta á eftir.

Jeg býst við, að þetta lagafrv. frá Rangæingum muni koma fram síðar á þinginu. Að minsta kosti ætla jeg að vinna að því, að svo verði.

Ef hv. mentmn. vill ekki flytja frv., þá munum við þm. Rang. ef til vill flytja það á þessu þingi samkv. ósk sýslun. Rangárvallasýslu. Jeg býst við, að það sje engum vafa bundið, að þessu frv., sem hjer liggur fyrir, verði vísað til mentmn. Þess vegna vildi jeg bera fram þessar aths. og benda henni á að leyfa fleiri ákvæðum upptöku í þetta frv. samkv. því, sem jeg nú hefi tekið fram. Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að lýsa óánægju yfir ákvæðum þessa frv. og er því á engan hátt mótfallinn. Skal jeg svo ekki lengja umr. meira að sinni