23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

24. mál, héraðsskólar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af fyrri lið í ræðu hv. 1. þm. Rang. vil jeg geta þess, að hann hefir skilið mig rjett. Jeg geri ráð fyrir, að það komi kröfur um fleiri hjeraðsskóla, í viðbót við þá, sem komnir eru, og að þeir skólar hljóti með samþ. Alþingis að heyra undir þessi lög. Vestur-Húnvetningar og Strandamenn hafa skrifað mjer um, að þeir vilji koma upp hjeraðsskóla við heita laug, sem er austanvert við Hrútafjörð; og þar er landskiki, sem er opinber eign. Víðar á landinu er mikill hugur í mönnum um stofnun hjeraðsskóla.

Að því er snertir síðara atriðið í ræðu hv. 1. þm. Rang., þá skal jeg geta þess, að það er rjett, að sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu hefir sent stj. frv. eða till. um stofnun vinnuskóla í Rangárvallasýslu, og ætla jeg að biðja hv. mentmn. að flytja það í þessari deild, eða þm. kjördæmisins. En það rekur sig ekkert á þetta frv., sem hjer liggur fyrir, um hjeraðsskóla.