23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

24. mál, héraðsskólar

Ólafur Thors:

Jeg hefi í raun og veru fáu að svara, einkum af því að hv. 2. þm. Rang. hefir með sinni ágætu þekkingu á málinu tekið fram flest það, sem jeg vildi sagt hafa. Eins og jeg hefi áður tekið fram, dæmi jeg ekki um það, hvort Laugarvatn sje heppilegur staður eða ekki. Sömuleiðis get jeg aðhylst það, að ekki skifti miklu máli fyrir nemendur skólans, hvort hann er 10–20 km. fjær eða nær heimilum þeirra, En það hefir talsverða þýðingu fyrir hjeraðsbúa alment, ef skólinn á að vera einskonar miðstöð í hjeraðinu, hvar hann er í sveit settur. Með tilliti til þess er hann betur settur í Árbæ en að Laugarvatni. Þangað er auðveldara að sækja fyrirlestra hvaðanæfa úr hjeraðinu. En það er ekki þessi hlið málsins, sem jeg ætla að gera að umtalsefni. Það, sem jeg legg áherslu á, er, að það hafi verið alveg óviðeigandi af hæstv. stj. að taka fram fyrir hendur hjeraðsbúa og ákveða staðinn upp á sitt eindæmi í trássi við þá. Hv. 1. þm. Árn. vildi halda því fram, að hæstv. ráðh. hefði eigi gert þetta. Sagði hann frá því, að einhver sýslunefnd hefði einhverntíma samþ. að reisa skólann að Laugarvatni. — eða skildi jeg það ekki rjett? Um þetta er mjer ekki kunnugt; en það veit jeg, að samkomulag um skólastaðinn milli Árnesinga og Rangæinga hefir aldrei orðið, fyr en Árbær var ákveðinn sem skólastaður. En þá tók hæstv. ráðh. fram fyrir hendurnar á þeim, og það þó hann hefði viðurkent sjálfsákvörðunarrjett þeirra með því að skipa oddamann í nefndina. Jeg sje eiginlega ekki, hvaða vit var í því að skipa manninn, en taka svo ekkert tillit til þess, sem hann lagði til. En í þessu kemur auðvitað fram einræði hæstv. dómsmrh., eins og í öðrum stjórnarathöfnum hans.

Það er sjálfsagt rjett, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að hæstv. ráðh. hefði tekið vel í skólastofnun að Árbæ. En hv. þdm. verða að gæta þess, að hæstv. ráðh. er þar að bjóða fram fje ríkisins, en ekki sitt eigið fje, og þess vegna er það engin dygð.

Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Árn., að við, sem áteljum athafnir stj. í þessu máli, sjeum að vekja úlfúð og að okkur komi þetta ekki við. Hverjum þm. ber að sporna við óþarfafjáraustri úr ríkissjóði. Það er eigi aðeins rjettur hans, heldur skylda að finna að því, þegar stj. eyðir fje ríkisins að nauðsynjalausu.