23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

24. mál, héraðsskólar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson): Aðeins nokkur orð, til þess að leiðrjetta nokkrar smávillur, sem fram hafa komið. Því hefir verið haldið fram, að góðar líkur hafi verið til þess, að sýslurnar mundu sameinast um einn skóla. Jeg þykist vita, að hv. 2. þm. G.-K. hafi ekki haft aðstöðu til að kynna sjer þessi mál, en hann getur fengið vitneskju um þau í Alþingistíðindunum 1926. Þar segir Eggert sál. Pálsson, sem var manna kunnugastur þessum málum, að ómögulegt væri að fá sýslurnar til að vinna saman. Það hefði verið reynt í heilan mannsaldur jeg engan árangur borið. Þessi þráður var svo tekinn upp aftur, eftir að málið hafði legið niðri um hríð, af nokkrum áhugamönnum í Árnes- og Rangárvallasýslum, og niðurstaðan varð sú, að skipuð skyldi nefnd til að gera út um málið. í þessa nefnd skyldu sýslurnar skipa sína tvo mennina hvor, en ríkisstj. þann fimta. Það var ekki búið að útnefna þennan mann, þegar stjórnarskiftin urðu, svo að það kom í minn hlut að gera það. Það er viðurkent af öllum, að oddamaður stj. gerði sitt ýtrasta til að koma á samkomulagi. En það var alt árangurslaust. Rangæingar vildu hafa skólann hjá sjer og Árnesingar hjá sjer. Úrslitaatkv. varð því að koma frá oddamanninum. Jeg vil benda á það, að skoðun sr. Eggerts heitins Pálssonar fjekk ríka staðfestingu í þessum málalokum. Jeg býst ekki við, að allir viti, að eftir atkvgr. í nefndinni virtist mikill hluti af Suðurlandsundirlendinu standa utan um skólann að Árbæ. En hvernig fór svo? Jeg skal ekki fara út í það, nema nokkuð er víst, að ekkert varð þar úr framkvæmdum. Á sýslufundi Rangárvallasýslu í vetur var fram borin till. um það að hafa skólann að Laugarvatni, en feld með 4:2 atkv., en till. um að hafa hann að Árbæ feld með 5:2 atkv. Þetta sýnir, að í Rangárvallasýslu var mótstaðan meiri gegn því að reisa skólann að Árbæ heldur en að Laugarvatni.

Jeg vil benda á það að lokum, að þessi atriði, sem jeg hefi drepið á, sýna, að þetta virtist óleysanlegt spursmál og ómögulegt var að fá sýslurnar til þess að taka höndum saman um málið. Hv. 1. þm. Rang. hefir skýrt málið frá sínu sjónarmiði, og jeg frá því, hvernig sr. Eggert sál. Pálsson leit á það. Og þó að menn sjeu að gamna sjer að því að deila um þetta mál í dag, þá er þó búið að leysa part úr málinu með því að styrkja mikinn hluta Árnessýslu til þess að koma sjer upp skóla. En það þarf að gera meira, og því er jeg sammála hv. 2. þm. Rang. um það, að reisa verði á sínum tíma annan skóla í Rangárvallasýslu til að hafa undan þörfinni. Það er eina leiðin, úr því að sýslurnar gátu ekki unnið saman.

Það hefði verið hlægilegt, ef landið hefði kipt að sjer hendinni og ekki viljað rjetta Árnesingum hjálparhönd til að koma sjer upp skóla, þegar þeir voru búnir að útvega fje og afbragðs stað undir hann.

Það, að nota náttúrugæðin, þar sem þau eru fyrir hendi, til þessara hluta, er svo gífurlegur sparnaður, að sparnaður sá, sem þessi hv. þm. var að tala um, verður að engu, þegar til samanburðarins kemur. Og jeg vil ennfremur benda þeim hv. þm., sem álasa Árnesingum fyrir að hafa valið Laugarvatn sem skólasetur, á það sláandi dæmi, að Borgfirðingar og Mýramenn, sem mjög einhuga hafa staðið að Hvítárbakkaskólanum, eru nú mjög ákveðið farnir að hugsa um að flytja hann þaðan á annan stað, þar sem hægt er að nota jarðhitann til upphitunar o. fl. í þágu skólans. Ef þetta og því um líkt eru ekki þung rök móti þeim mönnum, sem álasa þeim Árnesingum, sem vildu hafa skólann á Laugarvatni, þá veit jeg ekki, hvað rök eru.

Þá er og annað atriði, sem jeg vil benda á, og það er, að skólastjórarnir á Laugum og Hvítárbakka eru í vandræðum með að hindra bað, að skólar þeirra verði of stórir. Í öðrum þeirra eru nú um 80 nemendur, en í hinum 60. Að þeir halda þessu fram, að mikið fjölmenni í skólunum sje miður heppilegt, er af uppeldisfræðilegum ástæðum. Þeir líta svo á, að skólarnir með því móti verði ekki eins góðir. Jeg fyrir mitt leyti er ekki sannfærður um, að þessi kenning sje rjett hjá skólastjórunum. En sje hún rjett, þá er það ljóst, að á Suðurlandsundirlendinu, þar sem búa um 10 þús. manna, verður að hafa tvo skóla, svo framarlega, sem verulegur hluti hins unga fólks, sem þar á heima og skóla vill sækja, á að komast að í skólunum. Og þó að þessi skoðun skólastjóranna og annara skólamanna, sem halda þessu fram, að skólarnir eigi ekki að vera mjög fjölmennir, sje alveg látin liggja á milli hluta, þá hlýtur hv. 2. þm. G.-K. og þeir, sem honum fylgja-í þessu máli, að sjá, að þegar styrkur ríkissjóðs er fastbundinn við hvern bekk skólanna, þá hlýtur það að vera sama, hvort það eru 10 bekkir í Árbæ, eða 5 í Árbæ og 5 á Laugarvatni. Og þegar þess er ennfremur gætt, að byggingarkostnaðurinn er hinn sami fyrir hvern bekk í heimavistarskólum, þá hlýtur það að vera öllum ljóst, að það er á engan hátt verra, að skólarnir sjeu tveir. Hvernig sem á þetta mál er litið, verður því niðurstaðan hin sama. Skólakostnaðurinn verður jafn á hvern mann, hvort sem það eru hundrað menn á tveimur eða tvö hundruð menn á einum stað. Jeg held því, að þessi skemtun, sem hjer hefir verið stofnað til með því að draga skólamál Árnesinga inn í þessar umr., verði til lítils annars en tefja tíma þingsins og auka umr. með alóþörfu málæði. En það er víst, að svo framarlega sem þessir 5 hreppar í Árnessýslu, sem hjer eiga hlut að máli, hefðu ekki lagt í það að koma upp Laugarvatnsskólanum, þá væri ekkert farið að gera enn til þess að leysa skólamál Suðurlandsundirlendisins. Þeir hafa því bjargað málinu.