23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

24. mál, héraðsskólar

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er fram komið. Með því hefir verið stigið spor í þá átt, að tryggja hag sveitaskólanna, bæði fjárhagslega og á annan hátt. Sóknin til kaupstaðaskólanna hefir ekki verið hvað minsti þátturinn í því að draga unga fólkið frá sveitinni. Þessir skólar ættu því að verða einn mikilsverður þáttur í því að festa fólkið í sveitunum, framar en nú hefir verið um hríð, með því að gefa sveitaunglingunum kost á að afla sjer þeirrar mentunar, er þeir æskja, í sveitunum sjálfum, og liður í því að bjarga einni hinni mestu nauðsyn sveitanna.

Út af deilu þeirri, sem risið hefir um stofnun Laugarvatnsskólans, þar sem haldið hefir verið fram, að einn skóli hefði nægt, þá vil jeg bæta því einu við, að jeg tel, að einn skóli muni nægja þessum hjeruðum fyrst um sinn. Það má a. m. k. verða mikil breyt. á áhuga manna á þessu svæði, einkum Rangæinga, þar sem allmikill hluti greiddra atkv. voru nýlega móti öllum skólum, ef Laugarvatnsskólinn nægir ekki fyrst um sinn, þegar hann er kominn í það horf, sem til er ætlast. Mjer finst ekki koma til neinna mála, að löggjafarvaldið fari að styrkja annan skóla á þessu svæði fyrr en búið er að fullbyggja Laugarvatnsskólann og reynslan búin að sýna hann of lítinn.

Um staðinn er það að segja, að enginn ágreiningur hefir komið fram um, að hann sje vel valinn og þeim kostum búinn, sem að notum koma. Jafnvel svo, að menn, sem ekki er ætlast til að sjeu neitt sjerstaklega vinveittir stj., hafa gefið þangað stórgjafir, vegna þess eins, að þeir hafa orðið hrifnir af staðnum. Hitt ber og öllum saman um, að það sje algert aukaatriði, hvort nemendur þurfa að sækja 10–20 km. lengra til skólans eða ekki. En sje staðurinn góður, sje jeg ekki, að það skifti miklu máli, hvar hann er, svo að alt þetta þvarg um það er aðeins rifrildi um keisarans skegg.

Vegna þeirrar ádeilu, sem gerð hefir verið á hæstv. dómsmrh., vil jeg taka það fram, að mjer finst frekar ástæða til að þakka honum það, að hann hafði í máli þessu vit fyrir þeim mönnum, sem ekki voru gæddir þeim fjelagsþroska að geta sjálfir ákvarðað staðinn í sameiningu. Og þótt hv. 2. þm. Rang. teldi sig ánægðan með Árbæ, þá voru þó flestir Árnesingar óánægðir með þann stað, eins og hefir þegar sýnt sig. Og það er einmitt svo, að hvar sem skólastaður er valinn, þá eru jafnan einhverjir óánægðir með hann í fyrstu, þótt þeir síðar sætti sig smátt og smátt við það, þegar þeir sjá, að staðurinn hefir verið vel valinn að öðru leyti. En það er t. d. von, að þeir, sem vildu engan skóla hafa og lýstu því yfir með atkv. sínu, sjeu óánægðir.

Jeg vil að endingu ráðleggja þeim hv. þm., sem taka ætla að sjer eldabuskustarfið hjer á þingi í vetur, að afla sjer einhvers undirstöðubetra í mat þann, er þeir ætla að framreiða, ef hann á að verða boðlegur.