23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2815 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

24. mál, héraðsskólar

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla ekki að blanda mjer til muna í sögu málsins. Það er því miður, að það hefir altaf strandað á hinu sama, að* samkomulag hefir ekki fengist. Jeg hefi um mörg ár haft áhuga fyrir þessu máli. Þegar jeg var í Skaftafellssýslu, þá var farið að tala um að setja á stofn samskóla fyrir þessar 3 sýslur. Jeg átti þá tal um þetta við sýslumenn Árnes- og Rangárvallasýslna, og jeg áleit þá, eins og ætíð síðan, að ekki skifti svo miklu máli, hvar skólinn væri settur, að öðru leyti en því, að miklu skifti, að Skólinn yrði þannig settur, að samúð sýslnanna gæti fylgt honum strax. En jeg hefi ávalt lagt áherslu á það, að sýslurnar ættu allar að sameinast um hann, því á þann hátt væri nógur styrkur til að gera skólann sem fullkomnastan, sem jeg tel og taldi aðalatriðið. Vitanlega var eitt skilyrðið, sem taka þurfti tillit til við val á skólastaðnum, að hann væri þar settur, sem hann mætti minstri andúð. Nú er skólinn settur á Laugarvatni, og gegn því hefir risið andúð austanfjalls. Nú er spurningin sú, hvort skólinn getur unnið svo á með því að sýna góða niðurstöðu af starfinu, að hann geti eytt þeirri andúð, sem risið hefir gegn honum. Það er sýnilegt, að þeim 5 hreppum, sem að stofnun hans stóðu, hefir verið það mikið áhugamál, þar sem krafist var alt að 40 þús. kr. framlags móti ríkissjóðsstyrknum. Þetta má telja hreinasta kraftaverk, ef þeir hafa lagt þá fjárhæð á sig. En jeg vil geta þess hjer, sem flogið hefir fyrir, svo hægt sje að mótmæla því nú þegar, að þeir hafi fengið lán hjá ríkinu til þess að geta þetta. En sje svo, þá fer nú lofið að minka í þeirra garð; það er ekkert óvanalegt, að slík lán sjeu svo gefin eftir síðar meir, og þá fer nú fórnin að verða minni. Jeg vil biðja hæstv. dómsmrh. að svara þessu.

Jeg verð að segja, að mjer þykir leitt að heyra, að komnar eru fram kröfur um 2 skóla á Suðurlandsundirlendinu. Um leið og jeg krefst þess, að slíkir skólar sjeu virkileg menningarstofnun og að þeir sjeu gerðir sem allra fullkomnastir, þá krefst jeg þess líka, að öll hagsýni sje viðhöfð um stofnun þeirra. En það er bersýnilegt, að tveir skólar verða í rekstri dýrari en einn, og erfiðara að fullnægja ýmsum menningarkröfum í sambandi við þá. Jeg vil nú vona, að til þess komi ekki, að setja þurfi upp 2 skóla. En þótt óánægja sje talsverð í byrjun, þá þarf að vinna að því, að hún hverfi. Og það verður best gert með því að velja til skólans sem besta kenslukrafta, menningarfrömuði, sem geri garðinn frægan. Einkum er áríðandi valið á skólastjóranum. Það má ekki velja hann með tilliti til skoðana hans, heldur hins, að hann sje fær um að hafa göfgandi og þroskandi áhrif á sálarlíf nemenda sinna.

Jeg vildi undirstrika þessa skoðun mína um leið og jeg vildi gefa hæstv. dómsmrh. tækifæri til að andmæla því, að skólinn hafi fengið lán úr ríkissjóði. Því ef það er ekki, þá er áhuginn óneitanlega mikill. (Dómsmrh.: Hrepparnir hafa lagt fram fjeð á móti. Ríkissjóður hefir ekki lánað neitt). Það er ágætt að fá upplýsingu um, að svo er.