23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

24. mál, héraðsskólar

Einar Jónsson:

Jeg býst við, að hv. þdm. þyki undarlega við bregða, að jeg skuli nú biðja um orðið í þriðja sinn. En mig langar til að leiðrjetta ummæli hæstv. dómsmrh. um atkvgr. í Rangárvallasýslu í nóv. síðastl. Hann vill láta líta svo út, sem minni áhugi hafi verið fyrir Árbæ en Laugarvatni. Hæstv. ráðh. skýrði að vísu rjett frá úrslitum atkvgr. í sýslunefndinni. En þeim úrslitum rjeði það, að samskólahugmyndin var úr sögunni með stofnun Laugarvatnsskólans; en þegar svo var komið málum, kaus meiri hl. sýslun. að stofna fremur skóla á Stórólfshvoli en í Árbæ. Þannig stóð á því, að færri atkv. voru greidd með Árbæ en Laugarvatni. Það er því ekki rjett að byggja það á þessari atkvgr., að Rangæingar hafi verið á móti ákvörðun n., sem tilnefndi Árbæ fyrir skólasetur.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. þm. Mýr. Hann álítur, að einn skóli væri nægilegur fyrir Suðurlandsundirlendi. Jeg er einnig þeirrar skoðunar. En málinu er nú svo komið, að samstarf er útilokað, og þýðir ekki um það að tala. En þegar hann heldur því fram, að ekki komi til mála að reisa annan skóla, þá þykir mjer hann nokkuð djarfmæltur. Mjer er kunnugt um, að ekki er búið að reisa nema nokkurn hluta þeirrar byggingar, sem gert er ráð fyrir að Laugarvatni. Nú vil jeg spyrja: Er ekki hægt að fresta viðbótarbyggingu að Laugarvatni og verja því fje, sem til hennar á að ganga, til þess að verða við óskum Rangæinga?

Jeg get nú látið útrætt um þetta mál. Tilgangur minn var aðallega sá, að gefa skýringu á því, hvernig stóð á atkvgr. sýslun. í Rangárvallasýslu. En mjer skildist, að hv. þm. Mýr. væri að tala um okkur íhaldsmenn í sambandi við einhvern kjötpott. Jeg held, að þessi hv. þm. reyni eins mikið og hver annar að nálgast kjötpottinn, og að honum hafi tekist það sæmilega. Vona jeg, að sú viðleitni hans beri sem ríkulegastan árangur og að hann nái í sem flesta heila kjötbita. Og get jeg ekki annað sjeð en að hann sje nokkuð vel á veg kominn með það.

Mjer þykir það mjög óviðfeldið, að hæstv. dómsmrh. skuli vera að brigsla öðrum um óheilindi og ráðleggja þeim að þegja um þetta mál; þeir ættu helst að þegja, sem hafa óhreint mál að verja, og það hefir enginn fremur í þetta sinn en hæstv. ráðh.