23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

24. mál, héraðsskólar

Gunnar Sigurðsson:

Hv. 1. þm. Rang. hefir að miklu leyti tekið af mjer ómakið. En jeg skal þó í fáum orðum skýra frá því, hvernig í málinu liggur.

Upphaflega hjeldum við þm. Árn. og Rang. fast við það að stofna einn samskóla fyrir báðar sýslurnar. Síðar komu fram einstakir menn, svo sem sýslumaður Rangæinga, sem vildu hafa sjerstakan skóla fyrir Rangárvallasýslu. Smámsaman hófust svo deilur um málið, sem stóðu árum saman án þess að til úrslita drægi. Afleiðingin varð sú, að menn urðu þreyttir á málinu, og gat það litið svo út, sem áhuginn fyrir skólanum væri að rjena. Jeg vil fyrir mitt leyti mótmæla því harðlega, að jeg hafi verið eða sje 177 andvígur skólastofnun; óska jeg skýringa á því hjá hv. þm. Mýr., hvað hann hafi átt við með ummælum sínum áðan, sem vel mátti skilja sem ásökun um það í minn garð.

Hv. þm. Mýr. er sjálfráður um það, hversu þakklátur hann er hæstv. dómsmrh. fyrir afskifti hans af málinu; en jeg hygg það koma af ókunnugleika þm. á málinu fyr og síðar. En þar sem nefndin var á einu máli, tel jeg, að hæstv. ráðh. hafi verið innan handar að sameina sýslurnar um skólann. Jeg er þess líka fullviss, að fleiri hefðu verið ánægðir með Árbæ en Laugarvatn, og að þeir, sem óánægðir voru með úrskurð n., mundu fljótlega hafa sætt sig við hann.