23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

24. mál, héraðsskólar

Magnús Jónsson:

Það, sem jeg ætla að segja nú, er aðeins ofurlítil kvittun til hæstv. dómsmrh. Jeg býst við, að hv. þdm. sjeu yfirleitt glaðir yfir þeirri skemtilegu ræðu, sem hann flutti áðan. Það sást á henni, að hverinn, sem allir hv. þdm. kannast við, er ekki ennþá hættur að gjósa. Það þarf ekki að láta í hann nema lítið eitt af sápu til þess að hann fari að gjósa. (ÓTh: Og það þó að þetta sje ekki nema óþverrahola). Hæstv. ráðh. sagðist ekkert hafa vitað um ferðir þeirra mentamanna, sem jeg nefndi, austur yfir fjall. Það er merkilegt, hvað hann er ófróður í þetta sinn, þessi hæstv. ráðh. Hann hefir þó stundum vitað það, sem smærra er, t. d. þegar hann var að segja frá vinnukonudraumunum norður á Akureyri. Það var alveg óþarfi fyrir hann að vera að sverja fyrir það, að hann hefði vitað um ferð fræðslumálastjórans að minsta kosti. Jeg var ekkert að ásaka hann um, þó að hann hefði vitað þetta. Jeg spurði bara. Annars skil jeg ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. er svona óstiltur; það er rjett eins og hann sje ekki með öllum mjalla. Jeg spurði ósköp blátt áfram, og hann hefði getað látið sjer nægja að svara því, að hann hefði engan þátt átt í þessu.

Mjer skildist raunar hæstv. ráðh. komast í mótsögn við það, sem hann var búinn að halda fram áður. Hann sagði nú, að oddamaðurinn hefði valið Árbæ af því, að hann hefði verið búinn að skoða alt málið vandlega og setja sig inn í hugsunarhátt manna í hjeraðinu. Því meiri ástæða var til að fara eftir tillögum hans.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa verið skyldugur til að skipa oddamann; það er rjett. En úr því að hann skipaði oddamanninn, var hann skyldugur til að fara eftir ráðum hans. Alt annað var skrípaleikur. Eftir þessar aðfarir hæstv. ráðh. finst mjer vafasamt, að hann hafi haft leyfi til að styrkja Laugarvatnsskólann.

Þegar leið á ræðu hæstv. ráðh., fór hún að harðna nokkuð mikið, og var eigi gott að fylgjast með orðum hans. Þó heyrðist mjer hann segja, að Jón heit. Magnússon hefði eyðilagt skólamálið. Jeg var eigi kunnugur afskiftum hans af því máli og veit því ekki, hvað hefir komið honum til að skirrast við að taka ákvörðun upp á sitt eindæmi, eins og hæstv. dómsmrh. hefir nú gert.

Hæstv. ráðh. sagði nú, að það hefðu verið íhaldsmenn og aðrir vondir nótar, sem hefðu eyðilagt skólamálið. Áður talaði hann um, að það hefði verið skoðanamunur meðal hjeraðsbúa. Ekki hefir Jón heit. Magnússon getað eytt málinu lengur en fram til ársins 1926. En þá er einkennilegt, að einmitt frá dánarári Jóns Magn. eru ummæli sr. Eggerts Pálssonar, sem hæstv. ráðh. vitnaði í áðan til þess að sýna, hve ólæknandi þessi sundrung manna sje. Jón heitinn Magnússon og íhaldsnótarnir hafa þá ekki unnið annað til saka en það, að lækna ekki það, sem var ólæknandi. Þegar jeg athuga þetta tvent, verð jeg að halda því fram, að hæstv. ráðh. segi það eitt, sem hann þarf á að halda eftir atvikum og skaplyndi hans býður honum.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um óheilindi íhaldsmanna gagnvart sr. Kjartani. Mjer skildist hann ætlast til, að íhaldsmenn kæmu sr. Kjartani að skólanum. En sje nokkur sekur um óheilindi gagnvart þessum manni, þá er það hæstv. ráðh. Fyrst ber hann fram till. um heiðurslaun handa honum og skammar þá, sem eru á móti henni. Jeg skal játa það, að mjer var mjög lítið um að samþ. þá till. Jeg vissi, að sr. Kjartan var einn af bestu prestum á landinu og fanst hæpið að láta hann fara úr embætti sínu. En þegar hæstv. ráðh., sem sjálfur flutti þessa till., hafði það á sínu valdi að láta sr. Kjartan verða skólastjóra, þá gerði hann það ekki. En orsökin mun vera sú, að nýr maður var kominn til sögunnar, sem hæstv. ráðh. vildi heldur; og þá hirti hann ekki um sr. Kjartan. Jeg skal ekkert dæma um hæfileika þess manns, sem nú stjórnar skólanum. Jeg þekki hann vel að góðu einu. En framkoma hæstv. ráðh. er jafnóheil, þó að sá maður sje góðum kostum búinn. Sundrungin og óheilindin í þessu skólamáli er engum fremur að kenna en hæstv. ráðh.