23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

24. mál, héraðsskólar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það gleður mig, að hv. 1. þm. Reykv. hefir komist til meðvitundar um það, að þetta mál kemur allóþægilega við hann og flokksbræður hans, þegar það er krufið til mergjar. Jeg hefi áður rakið sögu málsins í nokkrum aðalatriðum og sýnt fram á, hvernig sundrungin, deyfðin og óheilindin hafa dregið framkvæmd þess árum saman. Nú loks hefir dregið til úrslita. Og hvað er það, sem hefir gerst? Það er búið að leysa nokkurn hluta þessa þrætu- og vandamáls, svo að allir mættu vel við una. Það er margreynt, að samkomulag milli sýslnanna var ómögulegt. Sjálf sýslunefnd Rangæinga feldi till. um að reisa skólann að Árbæ. En nú, þegar búið er að leysa nokkurn hluta málsins, rísa upp menn, sem aldrei áður hafa neitt viljað fyrir það gera, og leggja sig fram til að vekja úlfúð meðal hjeraðsbúa og óvild gegn skólastaðnum. Hv. 1. þm. Reykv. játaði það sjálfur, að hann hefði verið á móti því, að sr. Kjartan yrði skólastjóri. Vinsemdin Í garð skólans var ekki meiri en svo, að hann tímdi ekki að sjá af einum presti til hans.

En jeg veit, hvað það er, sem hv. 1. þm. Reykv. og samherjum hans svíður sárast í þessu máli. Þeir vita og finna, að þeir hafa beðið ósigur. Allur sá stuðningur, sem skólinn nýtur nú frá mönnum á ýmsum stöðum og úr öllum flokkum, er vantraust gegn framkomu þeirra í garð skólamálsins. Skólanum berast nú gjafir hvaðanæfa að, jafnvel úr ólíklegustu áttum. Á meðal þeirra manna, sem nú styðja Laugarvatnsskólann, eru jafnvel margir kjósendur hv. 1. þm. Reykv., sem að vísu greiða honum atkv., en vita, að hann er flón í þessu máli.

Gengi Laugarvatnsskólans er rjettlát hefnd á hv. 1. þm. Reykv. og hans líka fyrir þá ósæmilegu pólitík, sem þeir beittu í þessu máli 1926. Því hefir verið lýst, hvernig málinu var þá komið. Rangæingar vildu ekki vera með í samtökunum. Sýslunefnd Árnessýslu ákvað skólastaðinn. Jeg fjekk samþ. heiðurslaun handa sjera Kjartani. Þingmenn Árnesinga voru búnir að útvega lán til. byggingarinnar. Framkvæmd var þegar hafin. Þá sendi Jón heitinn Magnússon brjef austur í Árnessýslu. Bannaði að byggja skólann. Bannaði sýslunni að taka lánið, og jeg held jafnvel, að uppdrátturinn af skólahúsinu hafi verið brendur í stjórnarráðinu. Að minsta kosti finst hann þar ekki nú.

Af öllu þessu hafa nú íhaldsmenn hlotið þá vansæmd, sem þeir áttu skilið. Árnesingar kunna þeim óþökk. Það hafa þeir sýnt við kosningar.

Ég skal taka það fram, að ummæli mín eiga ekki við alla íhaldsmenn. Meðal þeirra eru ýmsar heiðarlegar undantekningar, sem hafa haft vilja á að greiða úr málinu á sæmilegan hátt. En hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. og þeirra líkar hafa ávalt komið illa fram í þessu máli. Þeir hafa nú beðið fullan ósigur.

Æskan á Suðurlandi hefir fengið skóla sinn, þrátt fyrir andstöðu þeirra; ef til vill verða þeir að þola þá raun, að Laugarvatnsskólinn verði stærsti skóli á landinu. Hv. 1. þm. Reykv. má óhræddur segja svo margar staðleysur, sem honum þóknast um þetta mál. Hann getur eigi spilt sínum málstað meira en orðið er. Og jeg get ekki komið í veg fyrir’ þá óvirðingu, sem hann óhjákvæmilega hlýtur af þessu máli, hversu ant sem mjer kynni að vera um sæmd hans.