02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

24. mál, héraðsskólar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mentmn. hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt í öllum aðalatriðum. Enda er frv. bygt á eðlilegum þroskaferli þessara stofnana á undanförnum árum.

Frv. þetta er bygt á því höfuðatriði, að skólamir skuli vera sjálfseign. Svo hefir það líka í rauninni verið um þessa skóla. Þeim hefir verið haldið uppi af einstökum mönnum og fjelögum, sem þó hafa lítið lagt til þeirra. Skólarnir hafa því mest lifað á skólagjöldum og ríkisstyrk, eftir að stofnfje hefir verið lagt fram í vissum hlutföllum af aðiljum og ríkissjóði. Þótt skólarnir sjeu nefndir hjeraðsskólar, þá er nú yfirleitt svo, að það er ekkert eitt hjerað, sem að þeim stendur, er sje fjárhagseining út af fyrir sig. Þetta hefir valdið töluverðum vanda um val skólastaða og tillög til þeirra, er orðið hafa af svo skornum skamti, að þegar skólagjöldin og tillag ríkissjóðs hafa ekki hrokkið til, hefir það gengið út yfir kennara, og þó einkum forstöðumenn skólanna. Að þessu leyti hefir verið öðru máli að gegna um skóla í sveitahjeruðum en í kaupstöðum. Þar er um fjárhagslega eining að ræða, sem fellur saman við skólahjeraðið. Þar er því um tvo sjálfsagða aðilja að ræða, sem að unglingaskólunum standa: bæjarfjelögin og ríkið.

Jeg hefi því komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegasta lausnin á skólamálum sveitahjeraðanna sje, að skólarnir verði sjálfseign og hljóti svo ríflegan stuðning úr ríkissjóði, að þeir með þeim stuðningi ásamt skólagjöldum geti staðið á eigin fótum. Til þeirra þarf því að leggja meira en til kaupstaðaskólanna, enda verður kenslukostnaður o. fl. dýrara, þar sem um heimavistarskóla er að ræða.

Nú vill svo vel til, að þegar setja skal lög um þetta efni, getur ekki leikið vafi á um það, hverja skóla beri að taka upp í frv. Um Laugaskólann og Hvítárbakkaskólann er enginn ágreiningur, enda þótt flutningur á síðarnefndum skóla standi fyrir dyrum. Um Núpsskólann vart heldur. Sá skóli er búinn að starfa svo lengi og hefir verið rekinn með svo mikilli prýði, að ekki gat komið til mála annað en taka hann með í frv., enda komin á hann sú festa, sem ekki er vert að hrófla við. Og þó sá skólastaður sje ekki búinn kostum hins heita vatns, þá er ekki á Vesturlandi um marga slíka heita staði að ræða, sem liggi vel við samgöngum og hafi auk hverahita aðra nauðsynlega kosti. — Um Laugarvatnsskólann getur ekki heldur verið ágreiningur. Hvað sem líður deilunni um val skólastaðarins, þá er skólinn þar kominn og staðarmálið þar með útkljáð. Enda er skólastaðurinn hinn glæsilegasti og hin byrjandi starfsemi hans lofar góðri framtíð. Um það getur því ekki verið ágreiningur, að hann á að verða skóli fyrir Suðurland, og eini Suðurlandsskólinn meðan hann fullnægir þörfinni. — Allir þessir skólar hafa notið styrks frá ríkinu. Þá er enn einn skóli, sem raunar ætti að njóta sömu kjara og þessir skólar. Það er Eiðaskólinn. En saga hans er orðin þannig, að ómögulegt er að fá því framgengt að svo stöddu. Sá skóli nýtur nú sjerstakra hlunninda, sem gera það að verkum, að ekki mun hægt að taka hann með í bráðina. Sýnir það best, hver vandræði geta hlotist af skipulagsleysi. En á því mun þetta frv. gera enda um allar framtíðarráðstafanir í hjeraðsskólamálum.

Það leiðir af sjálfu sjer, að þegar skólamir skulu vera sjálfseign, verður stjórn þeirra að vera með sjerstöku sniði. Í frv. er gert svo ráð fyrir, að fyrst í stað skipi stofnendur 2 menn í stjórnina, en eftir 5 ár getur fjelag gamalla nemenda öðlast þann rjett. N. hefir viljað gefa stofnendum meiri rjett og auka þar með festu í stjórn skólanna umfram það, sem var í frv. — 4. og 5. brtt. tryggja stofnendum skólanna áframhaldandi rjett til að taka þátt í skipun skólanefndanna.

Tilgangur þessara skóla er sá, að búa unglingana undir athafnalíf við íslensk lífskjör með bóknámi, vinnu og íþróttum. Þeir ættu að hafa öll skilyrði til að geta líkst meir enskum og grískum uppeldisstofnunum en flestar aðrar skólastofnanir okkar um það, að lögð sje meiri áhersla á siðferðislegan og líkamlegan manndóm, sem hollar venjur og heimilishættir skapa. Heimavistaruppeldi við góð kjör hefir marga kosti. Það eitt er að syrgja í þessu sambandi, að skólatíminn er nokkuð stuttur. En væntanlega verður hægt að bæta úr því áður en langt um líður, með því áð bæta við 3. ársdeild.

En til þess að þessir skólar geti haft það gildi fyrir íslenska sveitamenningu, sem ástæða er til að gera sjer vonir um, þá má hinn fjárhagslegi skór ekki vera of þröngur. Fjárhagsörðugleikar hafa til þessa ráðið niðurlögum margra góðra tilrauna til skólastarfs í sveitum. N. hefir því orðið sammála um, að hækka þurfi styrkinn frá því, sem er í frv. Leggur hún því til, að ríkissjóður greiði 6000 kr. á fyrstu 15–20 nemendurna. Er það minst á mununum fyrir ríkissjóð. Aðeins 1000 kr. á skóla, eða 4000 kr. alls samkv. þessu frv. Einnig vill n. hafa tvö stig á greiðslu ríkisstyrks vegna nemendafjölda. Hækka á lægri tölunni, eða frá 20 upp í 40 nemendur, en lækka svo úr því. Er það bygt á því, að hlutfallslega er dýrara að reka skóla með fáum nemendum en mörgum. óttast jeg mest, að hjer sje farið of skamt. Till. okkar eru miðaðar við lágmarksþörf undanfarinna ára. Má vera, að með þeim sje fullnægt brýnustu þörfum, en hvað lægra er farið, mun það valda örðugleikum. — Það eitt er því að afsaka, að ekki hafa verið gerðar svo háar kröfur, að skólarnir gætu haft rúmt um sig hvað fjárhag snertir.

Um brtt. n. er það frekar að segja, að 1. brtt. er aðeins orðabreyt.; 2. brtt. er nánari skilgreining á, hvernig sjálfsnámi skuli hagað; 3. brtt. lýtur að hinu sama. Um 3 næstu brtt. hefi jeg áður rætt. Þá er 7. brtt., að styrkur skuli veittur til námsskeiða, eins þótt skemur standi en 6 vikur, eins og er í frv. Um sum námsskeið er svo, að þau geta verið nauðsynleg og gert fult gagn, þótt þau standi eigi lengur en t. d. 2–3 vikur. —

8. brtt. er öryggisráðstöfun, ef skóli verður fyrir óhöppum. Verða þau vart bætt rjettlátlega öðruvísi en eftir mati fræðslumálastj. í hverju einstöku tilfelli.

Hefi jeg svo eigi meira að segja að sinni. Þetta er gott frv. og óska jeg, að því vegni vel í hv. deild og á þingi.