16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Jeg hefi ekki getað fallist á þá skoðun hv. meiri hl. mentmn., að það væri formlega rjett að breyta þessu lagaákvæði þannig, eða gefa aðeins nokkurskonar skýringu á þessu lagaákvæði, úr því að á annað borð hefir svo til tekist, að lögin eru staðfest og birt í Stjórnartíðindum í öðru formi en því, sem menn vilja að þau sjeu. Ef hv. deild vill á annað borð fá breytingu, þá finst mjer alveg sjálfsagt að gera hana í lagaformi. Þetta frv. hefir gengið í gegnum hv. Ed. og á aðeins eftir síðustu umr. hjer, til þess að þetta verði samþ. í frumvarpsformi, löglega.

Jeg vil benda á það, að þótt stjórn Menningarsjóðs, landsstjórn og þingmönnum sje kunnugt um þetta, þá getur farið svo, að þeir, sem um það vita, falli frá, og hinir síðari menn kannist ekki við, að til sje rökstudd dagskrá í þingtíðindunum, sem segir, að lögin hafi verið prentuð öðruvísi en til var ætlast, og Mentamálaráðið komi til að hafa ráðin þrátt fyrir dagskrána í þingtíðindunum. Aftur á móti, ef þetta kemur í Stjórnartíðindunum, þá verður það til leiðbeiningar þeim, sem hafa með lögin frá í fyrra að gera.

En það er hjer annað atriði, sem kemur til greina og sem gerir það líka, að hv. meiri hl. hefir ekki viljað breyta þessu með lögum. Það er það, að hv. Ed. skaut hjer inn nýju smáatriði í þetta frv., sem er það, að láta ekki stjórn útgáfudeildarinnar vera alveg einráða um val bókanna, heldur bætti við ákvæði um það, að ekki skuli taka fullnaðarákvörðun umval bóka án þess að leita álits Mentamálaráðsins sjálfs. Það mun vera þetta, sem hefir valdið því, að hv. meiri hl. vildi ekki láta samþ. þetta frv., en að breyta því hefði kostað það, að þá hefði frv. orðið að fara til Ed. aftur, og málinu með því verið stofnað í hættu. Jeg fyrir mitt leyti álít alveg hiklaust, að þessi breyt. sje til bóta, og það er vegna þess, að í stjórn þessarar útgáfudeildar eru, eftir lögunum um Menningarsjóð, sjálfkjörnir menn: Prófessorarnir í íslenskum bókmentum og sögu við háskólann í Reykjavík og kennarinn í íslensku við kennaraskóla landsins. Og þó að svo hittist á nú, að ágætir menn sjeu í þessum stöðum, þá skilst mjer, að það geti verið menn í þessari stjórn, sem hafi ekkert sjerlegt vit á því að velja bækur við alþýðuhæfi; t. d. er ekki víst, að það sje altaf skáld og rithöfundur, sem kennir íslensku við kennaraskólann; það getur alveg eins verið maður, sem er duglegur við að stagla málfræði inn í nemendur sína. Það getur líka verið í alla staði merkur sagnfræðingur, sem er kennari í sögu við háskólann, þótt hann sje ekki sjerstaklega fær um að velja bækur við alþýðuhæfi. Aftur á móti er Mentamálaráðið kosið af Alþingi með það fyrir augum að stjórna sjóðnum, og það er ekki hugsanlegt, að Alþingi láti hjá líða að velja menn með smekk og þekkingu.

Jeg vil þess vegna, af þessum framkomnu ástæðum, breyta lögunum með lögum, og þrátt fyrir þessa litlu breyt., sem gerð hefir verið, hefi jeg lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, og ef svo verður gert, þá er það mjög fyrirhafnarlítið; frv. þarf ekki nema að ganga í gegnum 3. umr. hjer, en ekki að fara aftur til hv. Ed.