16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er rjett hjá hv. þm. (MJ), að það á að breyta lögum með lögum. En vegna þess að hv. þm. vill breyta núgildandi lögum og fá Mentamálaráðinu yfirráð yfir bókaútgáfunni, vegna þess vill hann nú lagabreytingu. En hinum, sem það eitt vakir fyrir, að vilja láta lögin standa eins og þau hafa verið samþ. af Alþingis hálfu, en aðeins leiðrjetta villu, sem hefir skotist inn hjá skrifstofunni, þeim má vera alveg sama, hvort frv. er afgr. með rökstuddri dagskrá eða breytt í það horf, sem það upphaflega var í, þegar það var borið fram í hv. Ed. En ef á að breyta frv. í það horf, þá þarf til þess enn þrjár umr. í þinginu, og er þá sýnt, að málið muni ekki ganga fram. Þess vegna var sjálfsagt fyrir okkur að taka þann kostinn, sem var jafngóður og einfaldur, að leggja til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá. Það er engin hætta á því, að það gleymist, að þessi dagskrá hafi verið samþykt; „traditionin“ í Mentamálaráðinu mun varðveita kunnugleikann um það. — Mentamálaráðið ræður ekki eins og nú er, og jeg tel heldur ekki heppilegt, að Mentamálaráðið hafi neina yfirsjón um þetta, því að jeg er viss um, að það, sem hefir heldur lítil laun, en ýmisleg störf, leggur ekki á sig það aukna erfiði að kynna sjer bækurnar rækilega, eins og útgáfustjórnin mun gera. Það stoðar ekki að setja úrslitavaldið til þeirra manna, sem ekki eru óskiftir við starfið, og geta því ekkert bætt um það, sem útgáfustjórnin hefir ákveðið.

Jeg hygg, að hv. frsm. minni hl. hafi því aðeins lagt áherslu á, að frv. sje samþ., að hann vilji breyta núgildandi lögum. Ef hv. frsm. væri þeirrar skoðunar, að það væru gildandi lög, að Mentamálaráðið ætti að hafa þessi yfirráð, þá hefði hv. þm. ekki lagt til, að þetta frv. yrði samþ., heldur felt. Í þessu liggur viðurkenning hv. þm. um þörf á frv., en það er viðurkenning um það, að eftir núgildandi lögum eigi Mentamálaráðið engin yfirráð að hafa yfir útgáfunni.