16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) :

Þó að jeg færi út í það í minni fyrri ræðu að mæla með þeirri breyt., sem hv. Ed. hefir gert á efni þessara laga, þá er það alls ekki rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að það sje aðeins vegna þeirrar breyt., sem jeg vil leggja til að frv. sje samþ. Mín ástæða er vitaskuld sú, að jeg tel þetta algerlega óformlega aðferð, að fara svona að. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ef jeg væri þeirrar skoðunar, þá væri sú rjetta afleiðing af því, að jeg ætti að leggja til, að frv. væri felt. Jeg skil ekki þetta. Einmitt af því að jeg tel rjett, að sá sanni vilji Alþingis komi fram, og það má búast við, að hann sje í þá átt, sem hann var í fyrra, þá sje nauðsynlegt að samþ. breytinguna. Eins og nú er, þá er það ljóst, að það er Mentamálaráðið, sem ræður. Þessi texti laganna segir það, og þess vegna, ef Alþingi vill ekki láta það ráða því, þá verður að samþ. breytinguna.

Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg vildi óska þess, að hið háa Alþingi henti ekki það formleysi, að ætla að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá. Það er alveg óvanaleg braut að leggja út á, því að það er ómögulegt að segja um, hvað mönnum kynni þá að detta í hug að afgreiða með rökstuddri dagskrá.

Um breyt. þá, sem okkur greinir á um, hv. frsm. meiri hl. og mig, vil jeg aðeins benda á það, að það er sá stóri munur á stj. útgáfudeildar og Mentamálaráðinu, að Mentamálaráðið ber ábyrgð fyrir Alþingi, en hitt ekki. Við skulum segja, að Alþingi, sem hefir sett svo mikið fje í þetta, sje mjög óánægt með bókaútgáfu sjóðsins, þá getur það engu tauti við komið, ef það er stj. útgáfudeildar, sem ræður þessu ein. Það eru fastskipaðir menn, sem ráða, af því að þeir eru í þessum embættum, og Alþingi getur við ekkert ráðið, nema þá með því að gera hreina byltingu. Aftur á móti getur það dregið Mentamálaráðið til ábyrgðar, þar sem það er kosið af þinginu.

Hina ástæðuna, að meðlimir Mentamálaráðsins muni ekki kynna sjer eins vel bækurnar, skal jeg undirskrifa og veit, að það verður jafnan stj. útgáfudeildar, sem hefir allar till. og ræður mestu um þetta, og að Mentamálaráðið fer ekki að skifta sjer af því, nema ef það telur, að þessi stj. breyti sjerstaklega óhyggilega.

Hjer er því sama til að dreifa eins og svo víða. Alþingismenn hafa sína ráðunauta, sem þeir leita ráða til, svo sem vegamálastjóra, vitamálastjóra, landssímastjóra o. fl. En hvers vegna dettur engum í hug að segja: Þessir menn hafa víst miklu betur vit á þessu en við alþm.; það er best að láta þá alveg ráða. Nei, alþm., sem ekki eru sjerfræðingar, taka till. þeirra til yfirvegunar, og ráða svo málunum til lykta. En þeir, sem hafa sjerþekkinguna, hafa sinn sterka tillögurjett. Og Mentamálaráðið, sem Alþingi hefir tökin á, getur tekið þarna í taumana.

En aðalatriðið er langsamlega það, hvort hjer á að fremja þetta formleysi, sem hv. meiri hl. fer fram á, eða ekki.